NTC

Fimm forgangsmál Loga Einarssonar í far­aldrinum

Fimm forgangsmál Loga Einarssonar í far­aldrinum

Logi Einarsson, formaður og oddviti Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi telur að fimm aðgerðir eigi að vera forgangi næstu daga og vikur á meðan baráttan er háð við nýja bylgju faraldursins.

Þetta kemur fram í grein eftir Loga sem birtist á Vísi í morgun. Hann segir að þótt mikil óvissa ríki um þróun smita og veikinda sé hægt að ráðast í ýmis verkefni strax. Ekki sé hægt að láta framlínustarfsfólkið eitt um að stytta sumarleyfin sín til að takast á við afleiðingar bakslagsins. Í baráttunni við þetta nýja afbrigði þurfi betri greiningu, meiri upplýsingar og skýrari aðgerðir.

Sjá einnig: Segir ferlið með Öldrunarheimili Akureyrar minna á leikjaaðferðir á Thatcher tímanum

Þá leggur Logi til eftirfarandi fimm mál sem Samfylkingin telur að eiga að vera í forgangi:

  1.  Styrking heilbrigðiskerfisins; nægt fjármagn tryggt til reksturs Landspítalans og eflingu heilbrigðiskerfisins á landsvísu. Fallið verði frá áformum ríkisstjórnarinnar um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu á næstu árum og ráðist í endurskoðun á fjármálaáætlun. Ef kalla þarf heilbrigðisstarfsfólk úr sumarleyfi vegna ástandins nú fái það sérstakt álag á laun.

  2.  Hagsmunir barna og ungmenna í forgrunni: allt gert til að tryggja að skólastarf, tómstundir og félagslíf barna geti hafist með sem minnstu raski eftir sumarleyfi. Liður í því getur verið að setja kennara og aðra þá sem sinna kennslu, tómstunda- eða félagsstarfi barna í forgang þegar kemur að því að velja hópa í viðbótarskammt af bóluefni í ágúst.

  3.  Aðgerðir fyrir atvinnuleitendur: atvinnuleysi er enn með því hæsta í Evrópu og verður að grípa til frekari aðgerða til handa atvinnuleitendum: Samfylkingin hefur lagt til að lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta, hækka lágmarksgreiðslur og tvöfalda persónuafslátt þeirra tímabundið sem hefja störf að nýju.

  4.  Stuðningsaðgerðir fyrir smærri fyrirtæki: vakta þarf starfsemi fjölbreyttra fyrirtækja um allt land, og grípa strax til stuðningsaðgerða fyrir þau sem þess þurfa, sér í lagi lítil fyrirtæki og einyrkja. Þá þarf að fjárfesta frekar í þekkingariðnaði og nýsköpun.

  5.  Sterk rödd á alþjóðavettvangi: útbreiðsla Delta-afbrigðisins er sterk áminning um að glíman við veiruna vinnst ekki fyrr en allar þjóðir hafa verið bólusettar. Íslensk stjórnvöld eiga að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að fátækari ríkjum heims verði tryggð bóluefni hratt og örugglega.

Logi upplýsir einnig í greininni að Helga Vala Helgadóttir, sem gegnir formennsku í Velferðarnefnd Alþingis, hafi óskað eftir að nefndin komi saman strax eftir helgi „til að fara yfir stöðuna og kalla eftir upplýsingum frá færustu sérfræðingum og framlínufólki. Þá verðum við í betri færum til að meta stöðuna á faraldrinum og baráttuna framundan.” 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó