Eyfirski safnadagurinn á Sumardaginn fyrsta

Eyfirski safnadagurinn á Sumardaginn fyrsta

Sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 24. apríl 2025 næstkomandi opna söfn og sýningar við Eyjafjörð dyr sínar fyrir gestum og gangandi.

Eyfirski safnadagurinn var fyrst haldinn árið 2007 og hefur verið haldinn árlega síðan, fyrir utan einn lítinn heimsfaraldur sem setti strik í reikninginn 2020.

Sumardaginn fyrsta opna um 13 söfn og sýningar við Eyjafjörð dyr sínar fyrir gestum og gangandi undir heitinu Eyfirski safnadagurinn. Markmiðið er að vekja athygli á fjölda fróðlegra og forvitnilegra safna sem eru við Eyjafjörð.

Enginn aðgangseyrir er að söfnunum á Eyfirska safnadeginum. Samræmdur opnunartími safnanna er frá 13.00 – 16.00 en sum eru með opið lengur. Mælum með að áhugasamir fylgist með opnunartímum og dagskrá á samfélagsmiðlum safnanna.

Söfnin sem opna dyr sínar eru Hælið, Listasafnið á Akureyri, Flugsafnið, Minjasafnið, Nonnahús, Leikfangasafnið, Iðnaðarsafnið, Davíðshús, Smámunasafnið, Mótorhjólasafnið, Hús Hákarlajörundar, Síldarminjasafnið, Flóra menningarhús í Sigurhæðum og margt fróðlegt og skemmtilegt verður í boði á söfnunum þennan daginn.