Eva Kristín þrefaldur Íslandsmeistari og sló Íslandsmet

Eva Kristín þrefaldur Íslandsmeistari og sló Íslandsmet

Eva Kristín Sólmundsdóttir vann um helgina alla þrjá Íslandsmeistaratitlana í sveigboga U16 flokki (kvenna, óháð kyni og félagsliða). Ásamt því sló Eva Íslandsmet á mótinu í félagsliðakeppni U16 undankeppni með liðsfélaga sínum Emmu Rakel Björnsdóttir í ÍF Akur.

Í sveigboga U16 kvenna var Eva Kristín efst eftir undankeppni mótsins og sat því hjá í 8 manna úrslitum. Eva mætti svo Helgu Bjarney Ársælsdóttir frá Egilstöðum í undanúrslitum þar sem Eva tók sigurinn 7-1 og tryggði sig inn í gull úrslitaleikinn. Í gull úrslitum kvenna mættust Eva Kristín og Salka Þórhallsdóttir í BF Boganum í Kópavogi. Þar tók Eva sigurinn örugglega 6-0 og Íslandsmeistaratitil sveigboga kvenna U16. Emma Rakel, liðsfélagi Evu, tók bronsið örugglega 6-0 á móti Helgu Bjarney frá Egilstöðum.

Í sveigboga U16 óháð kyni var Eva Kristín efst eftir undankeppni mótsins og sat því hjá í 8 manna úrslitum. Eva mætti svo Helgu Bjarney Ársælsdóttir frá Egilstöðum í undanúrslitum þar sem Eva tók sigurinn 6-2 og tryggði sig inn í gull úrslitaleikinn. Í gull úrslitum óháð kyni mættust svo aftur Eva Kristín og Salka Þórhallsdóttir í BF Boganum í Kópavogi. Leikurinn þar var mjög jafn og útlit fyrir að leikurinn gæti endaði í jafntefli og bráðabana þegar að ein ör var eftir af síðustu lotunni. En Eva lokaði lotuni með 10 stigum á móti 8 frá Sölku, fullkomin lota 10-10-10 og Eva tryggði sér sigurinn og Íslandsmeistaratitil sveigboga U16 óháð kyni líka. Helga Bjarney úr Skaust á Egilstöðum tók bronsið í bráðabana á móti Emmu Rakel Björnsdóttir.

Í sveigboga U16 félagsliðakeppni tóku Eva Kristín og Emma Rakel, liðsfélagi hennar í ÍF Akur, Íslandsmeistaratitilinn með 1089 stigum sem er einnig nýtt Íslandsmet í sveigboga félagsliðakeppni U16. En metið var áður 919 stig.

Samantekt af árangri Evu á Íslandsmóti U16:

  • Íslandsmeistari Sveigboga U16 kvenna – Eva Kristín Sólmundsdóttir – ÍFA Akureyri
  • Íslandsmeistari Sveigbogi U16 (óháð kyni) – Eva Kristín Sólmundsdóttir – ÍFA Akureyri
  • Íslandsmeistari Sveigboga félagsliðakeppni U16 – ÍF Akur Akureyri
    • Emma Rakel Björnsdóttir
    • Eva Kristín Sólmundsdóttir
  • Íslandsmet Sveigboga félagsliðakeppni U16 – ÍF Akur – 1089 stig (metið var 919)
    • Emma Rakel Björnsdóttir
    • Eva Kristín Sólmundsdóttir
Sambíó
Sambíó