NTC

„Ég var hræðileg móðir, hvernig gat ég gert þetta?“

Þóranna Friðgeirsdóttir skrifar.


„Mamma veistu hvar Pabbi hans Fannars á heima?“
spurði Friðgeir mig í morgun um leikskólavin sinn og nágranna. „Hann er nefnilega núna hjá pabba sínum“.

Árið 2007 skildum ég og barnsfaðir minn með eina 18 mánaða. Í nokkra mánuði reyndum við að hafa þetta „helgarpabba“ sístem eins og áætlað var! Svo bauðst mér vinna fyrir sunnan í rúmlega mánuð sem ég tók og skil snúlluna eftir hjá pabba sínum. Ég var hræðileg móðir, hvernig gat ég gert þetta ? Skilið barnið svona eftir hjá pabba sínum (sem er mjög ástríkur og góður pabbi), þvílík sjálfselska! Hefði ekki verið meiri sjálfselska að rífa barnið upp úr leikskóla og frá sínu umhverfi fyrir nokkra vikna dvöl í Reykjavík? Þannig leit ég allavega á það.

Eftir heimkomu gat pabbi hennar auðvitað ekki hugsað sér að detta í helgarpabbasístemið aftur. Hann las rannsókn sem var gerð í Svíþjóð um að þau börn sem myndu alast upp viku og viku hjá fráskildum foreldrum kæmu almennt betur út úr skilnaðnum, ættu betri samskipti við báða foreldra og liði almennt betur en í svona helgarsístemi. Ég gat ekki annað en allavega gefið því séns. Um 2 ára byrjar dóttir okkar að vera viku hjá mömmu sinni og viku hjá pabba sínum. Fólk gapti enn og aftur, þetta á aldrei eftir að endast? Hvað eru þið að hugsa? Hvernig getur þú þetta? Verið frá barninu þínu í heila viku í senn? Er þetta ekki erfitt fyrir barnið ?

Ég skal viðurkenna það að það tók mann alltaf svona 3 daga að byrja að njóta þess að vera barnlaus, samviskubitið að naga mann.
En hvað með pabbann? Mér fannst svo skrýtið að fólki þætti bara almennt í lagi að maðurinn sem bjó til barnið með mér, ætti jafn mikið í barninu og ég, elskaði hana jafn mikið og ég og langaði almennt að hafa hana hjá sér alltaf, ætti bara að geta hitt barnið 4-6 daga í mánuði ? 4 daga af 31 degi? Ekki gat ég hugsað mér það sjálf, afhverju þá hann?

Við gerðum þetta í nær 8 ár frá því að hún var 2 til 10 ára, vika og vika. Þar sem ég var á leigumarkaðnum en hann ekki þá passaði ég mig bara á því að reyna að búa í sama hverfi. Það sem við uppskárum var ofsalega fallegt samband milli okkar allra, milli barns og föðurs. Við náðum að finna okkur án hvors annars, það er einn kosturinn við að fá barnlausu vikuna, maður fær tíma til að finna sjálfan sig uppá nýtt, fara úr við í ég.
Barnið okkar er orðið 11 ára í dag. Við mæðgur fluttum í annað bæjarfélag í fyrra en með aðstoð snjallsíma er pabbi aldrei langt undan.

2017. Mér hlýnar um dýpstu hjartrætur þegar ég heyri af foreldrum sem sem hafa börnin sín í viku og viku, ég veit að það hentar ekki öllum börnum eða foreldrum en ég elska að „helgarpabba“ sístemið er nánast orðið úrelt.
Þegar að báðir foreldrar taka virkan þátt í uppeldi barna sinna þrátt fyrir sambúðarslit.
Að það sé verið að átta sig á því að pabbar eru jafn mikilvægir og mömmur.
Þegar að foreldrar geta sett sinn ágreining til hliðar fyrir börnin, það er ekki þeim að kenna að sambandið gekk ekki upp.

Í dag á ég þrjú börn með tveimur pöbbum, bestu pöbbum sem ég gæti hugsað mér. Þeir elska börnin sín alveg jafn mikið og ég, þeir kyssa og knúsa alveg jafn mikið og ég, þeim er ekki sama.

Takk þið tveir.

Til hamingju með 2017, ég er svo glöð í hjartanu að fólk sé að komast út úr kassanum sínum og átta sig á því að hlutirnir eiga ekki að vera svona eða hinsegin.

„What screws us up most in life is the picture in our head of how it’s supposed to be.“

Þessi pistill er aðsend grein.

 

VG

UMMÆLI

Sambíó