Í ár verða 110 ár liðin frá andláti George H. F. Schrader, amerísks auðjöfurs sem bjó á Akureyri á öðrum áratug 20. aldar. Schrader græddi á tá og fingri í viðskiptum í Bandaríkjunum um aldamótin 1900 og var sem hann upplifði ameríska drauminn þegar hann, öllum að óvörum, ákvað að yfirgefa heimalandið fyrir fullt og allt. Hann sigldi til smábæjar á norðanverðu Íslandi þar sem hann hugðist eyða síðustu æviárunum. Fáir ef einhverjir munir úr fórum Schrader hafa varðveist á Akureyri þrátt fyrir rúmlega þriggja ára dvöl í bænum. Fyrir síðustu jól fannst gömul bók í geymslu Menntaskólans á Akureyri sem vakti athygli fyrir fallegt band. Rannsóknir hafa nú leitt í ljós að George H. F. Schrader lét binda bókina inn í dýrt skrautband veturinn 1912-1913.
Bókin sem um ræðir heitir Travels in the Island of Iceland, during the Summer of the Year 1810. Hún er eftir Sir George Steuart Mackenzie, gefin út árið 1812 og ber stimpil Möðruvallaskóla. Þannig er hún líklega ein af þeim bókum sem skólapiltar björguðu úr brennandi skólabyggingunni árið 1902. Frá Möðruvöllum fór hún til Gagnfræðaskólans þar sem Schrader fékk hana að láni í upphafi dvalar sinnar á Akureyri.
Frekari umfjöllun um dularfulla Bandaríkjamanninn George H. F. Schrader og bókina sem fannst í MA má lesa á heimasíðu Grenndargralsins.