NTC

Barnaspamm er blekkingarleikur

Helga Þóra Helgadóttir skrifar

Helga Þóra Helgadóttir skrifar

Áður en ég eignaðist barn var ég með smávægilegt ofnæmi, kannski bara óþol fyrir barnaspammi á Facebook. Fór svona nett í taugarnar á mér ef fólk setti mynd af krakkanum sínum í hverri viku. Svo ég tali nú ekki um þegar fólk titlar barnið sitt fallegasta og dásamlegasta barn í heimi. Það bara meika ég ekki því að það er lygi. Það hefur engin séð þau öll og því mjög erfitt að leggja sleggjudóm á það. Jájá, fólk tekur svona til orða en mikið er það þreytandi. Núna á ég orðið mitt eigið barn sem að mér finnst mjög fallegt, aðrir hafa líka haft orð á því. Ég hef markvisst reynt að barnaspamma ekki Facebook en það reynist mér stundum erfitt. Hún gerir rosalega mikið af nýjum frussuhljóðum og er núna byrjuð að skríða. Það þarf ekki að spyrja að því að undirrituð fellir tár í hvert skipti sem að barnið gerir svona gloríur og líður eins og hún sé undrabarn. Það er augljóslega freistandi að vilja gorta sig af þessu skiljiði.

Frændi minn eignaðist barn stuttu á undan mér og hann og kærastan hans eru fólk að mínu skapi. Þau birta margar myndir af barninu en yfirleitt eru þær eins dagssannar og veruleiki nýbakaðra foreldra getur orðið. Þar má helst nefna barnið alsælt í baði, búið að kúka í það. Svona barnaspamm er frábært afþví að svona er þetta. Ef einhver sem les þetta er að fara eignast barn eða langar að eignast barn má hann alveg vita að barnið er ekki bara sætt og situr í ömmustólnum sínum allan daginn. Það hélt ég. Ég hélt að krakkinn myndi bara sofa og sofa, leika sér hljóðlaust og drekka þegar ég vildi að það myndi drekka. Svoleiðis lítur þetta dæmi nefnilega svolítið út á Facebook. ,,Dásamlegasta og fallegasta barn í heimi sem að gerir alla daga betri!”. Þetta er mikill misskilningur, krefjandi er orðið sem á að vera þarna á eftir dagar. Miskiljiði mig þó ekki alveg, dagarnir verða vissulega skemmtilegri, en líka krefjandi. Facebook glansmyndin hefur bara mjög blekkjandi áhrif á foreldrahlutverkið og það er ekki hægt að senda formlega kvörtun til Facebook í ljósi falskra upplýsinga. Ég er búin að reyna það og þeir sögðu að ekki væri ástæða til aðhafast frekar í málinu.

Þetta er aðsendur pistill. Ef að það leynist penni innra með þér eða eitthvað brennur sérstaklega á þér um málefni líðandi stundar, komandi stundar eða liðinnar stundar, þá skaltu ekki hika við að senda á okkur fyrirspurn. Hvort sem um er að ræða frétt, afþreyingarefni, pistil eða annað sem þér dettur í hug getur þú sent það á kaffid@kaffid.is eða haft samband á Facebook síðunni okkar.

Sambíó

UMMÆLI