Barnamenningarhátíð hefst á þriðjudaginn

Barnamenningarhátíð hefst á þriðjudaginn

Árleg Barnamenningarhátíð á Akureyri hefst þann 1. apríl næstkomandi. Hátíðin stendur yfir til 27. a8príl. Ótal viðburðir eru á dagskrá og ættu allir að geta fundið eitthvað eftir sínu höfði. Þetta er í áttunda skipti sem hátíðin er haldin á Akureyri, en hún var fyrst haldin árið 2018.

Byrjar með trompi

Strax á fyrsta degi hátíðarinnar, þriðjudaginn 1. apríl, fara tveir tónleikar fram í Hofi. Um er að ræða hlut í spennandi verkefni sem heitir Leikur að orðum. Nemendur í Tónlistarskólanum á Akureyri og elstu deildum leikskólanna leiða saman hesta sína og flytja saman lög eftir Braga Valdimar Skúlason. Tónleikarnir verða tveir, fyrstu klukkan 13 og seinni klukkan 14:30. Um er að ræða hluta af verkefninu Söngvavor, samvinnuverkefni á landsvísu milli tónlistar- og leikskóla. Frekari upplýsingar um verkefnið og tónleikana má finna með því að smella hér.

Fjölbreytt dagskrá

Markmið Barnamenningarhátíðar á Akureyri er að hvetja börn og ungmenni til virkrar þátttöku í menningarstarfi og veita þeim tækifæri til að njóta lista og menningar. Elísabet Ögn Jóhannsdóttir, verkefnastjóri menningarmála hjá Akureyrarbæ, segir það einnig vera meginreglu að ókeypis sé inn á viðburði. Viðburðadagatal er hægt að skoða á barnamenning.is eða með því að smella hér.

Á boðstólum er ýmislegt nýtt og spennanandi, en fastir liðir fyrri ára halda sínum sess. Hæfileikakeppni Akureyrar er á sínum stað þann 3. apríl, þar sem börn í 5. til 10. bekk fá tækifæri til þess að sýna kúnstir sínar. Lokatónleikar Upptaktsins verða haldnir þann 27. apríl, þar sem sjö glæný lög eftir akureyrsk ungmenni verða frumflutt af hljómsveit, en þau hafa verið útsett af tónlistarfólkinu Gretu Salóme og Kristjáni Edelstein.

Þó að dagskráin sé smekkfull af skemmtilegheitum segir Elísabet að hátíðin nái án efa hápunkti þann 8. apríl á Sumartónum. Það eru tónleikar í Hamraborg í Hofi þar sem júróvisjón sigurvegararnir VÆB munu koma fram í fyrsta sinn á Akureyri. Með þeim verður stelpuhljómsveitin Skandall. Líkt og áður fengu grunnskólanemar á Akureyri að kjósa um það hverjir kæmu fram á tónleikunum. Síðustu ár hafa Sumartónar verið haldnir á sumardaginn fyrsta, en það þurfti að færa þá til þetta árið. Líkt og Kaffið hefur áður greint frá verður þó líka heljarinnar dagskrá í Hofi á sumardaginn fyrsta.

Undirbúningur hófst í haust

Kaffið ræddi við Elísabetu Ögn, sem hefur yfirumsjón með barnamenningarhátíðinni. Hún segir vinnuna við barnamenningarhátíð hvers árs í raun hefjast þegar auglýst er eftir styrkjaumsóknum haustið áður. Einstaklingar og lögaðilar sem hafa áhuga á að halda viðburði senda þá inn umsóknir um styrki, sem Elísabet fer yfir með faghópi. Þegar styrkjum hefur verið úthlutað hefur Elísabet samband við aðilana og leggur þeim línurnar og svo er viðburðum bætt inn á viðburðadagatalið. Hún segir það mjög mikilvægt að þau séu dugleg að auglýsa sjóðinn svo þau haldi áfram að fá nóg af flottum umsóknum og þar af leiðandi nóg af flottum viðburðum.

Elísabet segist einnig þurfa að huga að auglýsingaefni og annarri grafík fyrir hátíðina á hverju ári. Að þessu sinni var það Ingibjörg Berglind Guðmundsdóttir, hönnuður hjá hönnunarstofunni Cave Canem, sem gerði alla grafík fyrir hátíðina, þar með talið borðann í þessari frétt.

Sambíó
Sambíó