Andrésar andar leikarnir hefjast á miðvikudaginnLjósmyndir: Pedrómyndir.

Andrésar andar leikarnir hefjast á miðvikudaginn

Andrésar andar leikarnir í skíðaíþróttum fara fram í 49. sinn dagana 23. til 26. apríl næstkomandi. Formleg mótssetning fer fram í Íþróttahöllinni klukkan 19:30 á miðvikudaginn og verður svo stíf dagskrá í Hlíðarfjalli út laugardaginn. Dagskrá leikanna árið 2025 er hægt að skoða í heild sinni hér að neðan eða á heimasíðu Skíðafélags Akureyrar. Hægt er að fylgjast með gangi mála á Facebook síðu leikanna.

Skíðafélag Akureyrar (SKA) stendur fyrir leikunum í ár líkt og áður, en Andrésarleikarnir eru stærsta skíðamót landsins ár hvert, sem og stærsta barnaskíðamót í Evrópu. Á hverju ári taka um 900 keppendur á aldrinum 4-15 ára þátt í leikunum. Þeim fylgja þjálfarar, fararstjórar, foreldrar og fjölskyldur og má því gera ráð fyrir að um þrjú til fjögur þúsund manns sæki leikana með einum eða öðrum hætti.

Í tilkynningu frá Skíðafélagi Akureyrar segir að leikarnir séu afar mikilvægur viðburður fyrir alla bæjarbúa, fyrirtækin í bænum og barnamenningu bæjarins, ásamt því að vera stærsti og mikilvægasti einstaki vetraríþróttaviðburður sem fram fer á Norðurlandi ár hvert.

Metfjöldi á leikunum þetta árið

Þrátt fyrir erfiðan skíðavetur með snjóleysi og sunnanáttum víða um land þá hefur það ekki haft áhrif á aðsókn að leikunum, því í ár eru 930 börn skráð til leiks frá 18 íþróttafélögum og hafa leikarnir aldrei verið svona vel sóttir.
Flestir iðkendur koma frá heimamönnum í Skíðafélagi Akureyrar eða 205 keppendur, en Skíðadeild Ármanns eru næst fjölmennastir með 102 þátttakendur.
Þátttakendur í alpagreinum eru 677, 184 í skíðagöngu og 97 taka þátt í snjóbretta greinum. Auk þess eru mörg börn að taka þátt í fleiri en einni grein skíðaíþróttarinnar.

Undirbúningur leikanna hefur staðið yfir frá því um síðasta haust og búast mótshaldarar við miklu fjöri á leikunum í ár. Andrésarleikarnir eru nú alltaf hápunktur hvers skíðavetrar hjá börnunum, sem og margra sem eru þyrstir í að koma til Akureyrar og taka þátt í gleðinni.

Aðstæður í Hlíðarfjalli eru með ágætum þrátt fyrir lítinn snjó. Starfsmenn Hlíðarfjalls hafa unnið hörðum höndum við að ýta og flytja til snjó og skapa góðar aðstæður svo leikarnir geti farið fram með eðlilegum hætti.

Að venju verða leikarnir settir í Íþróttahöllinni á Akureyri síðasta vetrardag miðvikudagskvöldið 23. apríl kl. 19:30 að lokinni myndarlegri skrúðgöngu allra þátttakenda frá Lundarskóla/Íþróttasvæði KA kl. 19.

Fimmtudag, föstudag og laugardag er svo keppt í öllum greinum, auk þess sem yngri þátttakendur fara í leikjabrautir. Veglegar kvöldvökur og verðlaunaafhendingar í Íþróttahöllinni verða í lok hvers keppnisdags.

Rótgrónar greinar halda striki og nýjungar kynntar í fyrsta sinn

Nýlunda í ár er að á fimmtudeginum, klukkan 15:00, verður kynning á skíðaskotfimi hluti af leikunum í fyrsta sinn. Skíðaskotfimi hefur verið vaxandi íþrótt á Íslandi undfarin ár, en greinin nýtur mikilla vinsælda víða um heim.

Um langt skeið hefur verið keppt bæði í alpagreinum skíðaíþrótta sem og skíðagöngu á Andrésarleikunum, en árið 2012 var í fyrsta skipti keppt á snjóbrettum. Sú grein hefur verið að eflast og stækka innan leikanna síðan. Einnig hefur verið keppt í svokölluðum stjörnuflokki síðastliðin 12 ár um það bil, en þar keppa fatlaðir eða hreyfihamlaðir íþróttamenn.

Nú um nokkurra ára skeið hefur 4 og 5 ára börnum einnig boðið að taka þátt í leikunum. Þessi börn taka þátt í leikjabraut þar sem allt snýst um að vera með og skemmta sér, en ekki að sigra. Fá allir þátttakendur í leikjabraut verðlaun fyrir þátttökuna og allir fara því brosandi heim. Í ár eru 78 börn á þessum aldri skráð til leiks.

Einkunnarorð Andrésar andar leikanna eru: “Njótum og skemmtum okkur saman!”
Sambíó
Sambíó