Angelea Panos, doktor í sálfræði, segir Akureyrarbæ vera að vinna frábært starf þegar kemur að móttöku flóttafólks. Stuðningsfjölskyldur og hvernig Akureyri hefur tekið á móti flóttafólki sé til mikillar fyrirmyndar. Angelea hefur unnið með stjórnvöldum undanfarið við að fræða þá sem koma að móttöku flóttafólks á Íslandi.
Hún segir að það skipti miklu máli að þar starfi maður sem talar bæði arabísku og íslensku og hefur starfað töluvert í Mið-Austurlöndum. Hann hefur búið á Íslandi í mörg ár og þekkir bæði til sýrlenskrar og íslenskrar menningar. Angelea segir það gríðarlega mikilvægt bæði fyrir flóttafólk og heimamenn að fá slíkan mann til starfa því það veiti bæði stuðning og öryggi.
„Það er unnið frábært starf á Akureyri og ég vildi óska þess að þetta væri þannig alls staðar í heiminum þar sem tekið er á móti flóttafólki,“ segir Panos í viðtali á mbl.is.
Angelea fékk styrk frá Fulbright–stofnuninni til að koma til landsins. Stofnunin veitir bandarískum sérfræðingum styrki til að koma til Íslands til kennslu- og rannsóknarstarfa. Angelea er sérhæfð í því hvernig eigi að veita fólki sem glímir við áfallastreituröskun aðstoð. Ítarlegt viðtal við Angeleu Panos um aðstæður flóttafólks og þjónustu við það má lesa á mbl.is.
UMMÆLI