Akureyrarbær rekinn með 557 milljóna afgangi 2017

Mynd; Kaffið.is/Jónatan.

Ársreikningar Akureyrarbæjar fyrir árið 2017 voru lagðir fram í bæjarráði á dögunum og niðurstaðan sú að rekstur samstæðunnar gekk vel á árinu 2017, þrátt fyrir mjög háa gjaldfærslu vegna breytinga á lífeyris- skuldbindingum. Þá var Akureyrarbær rekinn með 557 millj. kr. afgangi 2017 sem er nokkru betri árangur en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Sjóðstreymi ársins var líka betra en árið áður.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs segist vera sáttur við afkomuna: „Ég er sáttur. Rekstrarniðurstaðan er góð hjá samstæðunni og betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Uppgjör lífeyrisskuldbindinga hefur mikil áhrif og þá sérstaklega á niðurstöðu A-hluta en hins vegar eru helstu kennitölur að batna, veltufé frá rekstri eykst og langtímaskuldir A-hluta lækka. Þegar upp er staðið eftir kjörtímabilið, má ljóst vera að við skilum af okkur góðu búi og sveitarfélagið er vel í stakk búið til að takast á við verkefni Akureyrar til framtíðar.“

Samstæða Akureyrarbæjar var rekin með 557 millj. kr. afgangi þegar tekið hefur verið tillit til ríflega 1.123 millj. kr. gjaldfærslu vegna lífeyrisskuldbindinga á árinu. Gjaldfærslan setur verulegan svip á niðurstöður ársreikningsins. Stafaði hún m.a. af hækkun á vísitölu lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna umfram ávöxtun eigna Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar. Jafnframt voru gerðar breytingar á lögum um skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna sem fólu í sér breytingu á réttindaávinnslu lífeyrisréttinda. Tók breytingin einnig til Brúar, lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga en uppgjör Akureyrabæjar við Brú nam í heild 2.511 millj. kr. og var gjaldfært 626 millj. kr. á árinu 2017 vegna þessa. Einnig var uppgjör við ríkið vegna lífeyrisskuldbindinga í B deild Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar fyrir Öldrunarheimili Akureyrarbæjar. Þar yfirtók ríkið 97% af skuldbindingunum Öldrunarheimilisins í þessum sjóðum og nam tekjufærsla vegna þess 460 millj. kr.

Rekstur samstæðu Akureyrarbæjar var viðunandi og rekstrarniðurstaða ársins í meginatriðum eins og fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði og tekjuskatt var jákvæð um 1.451 millj. kr. en áætlun hafði gert ráð fyrir 1.547 millj. kr. rekstrarafgangi. Heildarniðurstaða var þó betri en áætlanir gerðu ráð fyrir eða 557 millj. kr. afgangur en áætlun gerði ráð fyrir 238 millj. kr. jákvæðri niðurstöðu. Meginskýring á þessum mun var lægri fjármagnskostnaður samstæðunnar en áætlun ársins gerði ráð fyrir.
Nánari upplýsingar og tölur um ársreikning Akureyrarbæjar má nálgast hér:

 

Ársreikningur Akureyrarbæjar 2017.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó