NTC

Akureyrarbær á aðalfundi Northern Forum

Fulltrúar á aðalfundi Northern Forum. Guðmundur Baldvin fimmti frá vinstri.

Norðurslóðamál voru til umræðu á síðasta fundi bæjarráðs en formaður bæjarráðs, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, sótti nýverið fyrir hönd sveitarfélagsins aðalfund Northern Forum sem fram fór í síberíska háskólanum í Krasnoyarsk í Rússlandi dagana 11.- 12. apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Á fundinum voru m.a. kynningar á verkefnum er snúa að menntun á norðurslóðum á ýmsun skólastigum, sagt var frá fjarlækningum og verkefnum er snúa að umhverfismálum. Með kynningunum fékkst innsýn inn í þau fjölmörgu verkefni sem verið er að vinna á Norðurslóðum og þau vandamál sem staðið er frammi fyrir. Hefðbundin aðalfundarstörf fólust í ýmsum samþykktum s.s. um staðsetningu á heimilisfesti Northern Forum í Yakutsk í Rússlandi og inntöku nýs meðlims. Staðfest var áframhaldandi ráðning á framkvæmdastjóra Northern Forum en Rússinn Mikhail Pogodaev hefur gegnt þessu starfi af miklu krafti.

Miklar umræður sköpuðust um stefnuskjal Northern Forum sem hefur verið í mikilli rýni og einnig hvort að rétt sé að stjórnarformennska í Northern Forum fylgi stjórnarformennsku í Arctic Council, Norðurskautsráðinu en Ísland kemur til með að taka við formennskunni í ráðinu árið 2019.

Tvö framboð komu um stjórnarmennsku í Northern Forum en þau voru frá Lapplandi og Nenets Autonomous Okrug sem er hérað í Rússlandi. Niðurstaðan var sú að Nenets Autonomous Okrug fékk 8 atkvæði af 10 og einungis sveitarfélagið Akureyri og Lappland studdu framboð Lapplands.

Í ávarpi formanns bæjarráðs á fundinum kom fram að Akureyri geti leikið lykilhlutverk í Northern Forum vegna nálægðar við Norðurskautsráðið og þeirra stofnana sem eru á vegum ráðsins á Akureyri en fjölmargar stofnanir í Norðurslóðamálum hafa aðsetur að Borgum og við Háskólann á Akureyri er boðið upp á nám í heimskautarétti sem tekur á fjölmörgum lögfræðilegum álitaefnum tengd norður- og suðurskautinu og þar er jafnframt gestaprófessorsstaða í heimskautafræðum. Í erindi Guðmundar lýsti hann jafnfram yfir vilja bæjarins til virkrar þátttöku í stjórn þegar Ísland gegnir formennsku í Norðurskautsráðinu en ljóst er að mikið er í húfi við að kynna það frábæra og metnaðarfulla starf sem á sér stað á Akureyri í málefnum Norðurslóða.

VG

UMMÆLI