Ábyrg framtíð og Græningjar bjóða ekki fram í Norðausturkjördæmi

Ábyrg framtíð og Græningjar bjóða ekki fram í Norðausturkjördæmi

Tveir stjórnmálaflokkar sem lýst höfðu yfir áformum um að bjóða fram í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar gera það ekki eftir allt saman. Það eru flokkarnir Ábyrg framtíð og Græningjar. Þetta er nú ljóst eftir að framboðslistar bárust ekki frá þeim áður en skilafrestur rann út klukkan 12 í dag.

Jóhannes Loftsson, stofnandi Ábyrgrar framtíðar, hafði áður lýst því yfir að flokkurinn hyggðist bjóða fram í öllum sex kjördæmum. Þegar flokkarnir skiluðu framboðslistum sínum í dag skilaði þó Ábyrg framtíð einungis inn gögnum fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður. Í samtali við Vísi segir Jóhannes flokkinn hafa einbeitt sér að því kjördæmi.

Stjórnmálaflokkur Græningja er nýtt framboð sem stofnað var þann 20. október síðastliðinn. Við stofnun flokksins var því lýst yfir að áætlað væri að bjóða fram lista í báðum Reykjavíkurkjördæmum og Norðausturkjördæmi. Kikka Sigurðardóttir, stofnmeðlimur flokksins, staðfesti hins vegar við RÚV í kvöld að flokkurinn muni ekki bjóða fram í þessum Alþingiskosningum. Hún sagði fyrirvarann að þessu sinni hafa verið of stuttan til að setja saman lista með öllu tilheyrandi. Flokkurinn er þó með einn fulltrúa á þingi eins og er því Bjarni Jónsson, þingmaður í Norðvesturkjördæmi, gekk til liðs við flokkinn síðastliðinn sunnudag eftir að hafa sagt sig úr þingflokki Vinstri grænna. Kikka segir við RÚV að Græningjar ætli sér að bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2026 og næstu Alþingiskosningum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó