Kristín Hólm Geirsdóttir – ADHD getur líka verið snilld

Kristín Hólm Geirsdóttir.

Kristín Hólm Geirsdóttir skrifar:

Kristín Hólm Geirsdóttir er 24 ára Akureyringur sem búsett er á Írlandi. Hún skrifaði á dögunum mjög skemmtilegan og fræðandi pistil á facebook síðu sína um sjúkdóminn ADHD eða athyglisbrest með ofvirkni eins og hún kýs frekar að kalla það: AMO. Þar lýsir hún öllum jákvæðu hliðum sjúkdómsins á skemmtilegan hátt. Við fengum leyfi Kristínar til að birta pistlinn hér:

AMO
Fyrir þá sem ekki vita þá er ADHD á góðri Íslensku kallað athyglisbrestur með ofvirkni, skammstöfun er AMO. Ég fékk mína greininu núna síðasta sumar og byrjaði á lyfjum í kjölfari þess. Ég ætlaði mér aldrei að fá greiningu og hvað þá byrja á lyfjum sem fikta í heilanum á mér en AMO er taugasjúkdómur og viðkemur heilanum. Ég er 24 ára þegar ég fyrst ákveð að byrja á lyfjum, ég ákvað það sjálf sem fullorðinn einstaklingur og ég þakka foreldrum mínum fyrir að leyfa mér og þolað mig lyfjalausa þegar ég var yngri. Það var árið mitt ógleymanlega í Svíþjóð sem ýtti mér yfir strikið og fékk mig til þess að virkilega pæla í lyfjagjöf. Eftir að hafa týnt húslyklunum yfir 3 sinnum og í eitt skiptið endað á sófanum hjá vinkonu minni einfaldlega af því að ég komst ekki inn í mína eigin íbúð. Eftir að hafa fengið skammir frá konunni sem vinnur í bankanum þegar ég labbaði inn biðjandi um nýtt debit kort í fimmta skipti og týnt símanum mínum yfir 20 sinnum. Svo má ekki gleyma því skipti sem ég gleymdi að loka frystinum og kom heim að poll stærri en Atlantshafið og allur matur orðinn að sulli. Ofvirknin virkar öðruvísi á mig en ég get átt í tveggja klukkustunda samræðu um kertavax, if I feel like it, og oft þegar ég kem heim er ég svo uppfull af sögum að ég stend í miðri stofunni með uppistand. Ég hef líka oft farið í 3+ göngutúra yfir daginn og daglega tala ég upphátt við sjálfa mig og skemmti mér konunglega.

Ég hef fengið að heyra það að ég sé athyglisjúk, frek, hávær, pirrandi og af því að ég sé ekki þessa svokölluðu “línu” sem má ekki fyrir yfir þá er ég oft leiðinlega hreinskilin eða gróf í talsmáta – Ég deili of miklu – þetta segir þú ekki upphátt.

Ég googlaði AMO og upp komu allskonar kvillar, neikvæð umfjöllun og hvað það er erfitt að vera með AMO. Ég er ósammála. Ég þakka fólkinu sem ég var með sem mest í Svíþjóð fyrir þann hugsunarhátt en þarna var ég umkringd fólki sem virkilega kunni að meta mína AMO hlið.

Mitt rant í dag er um alla þá jákvæðu hluti sem fylgja AMO.

Mér finnst rosalega fínt að líkja AMO við rússíbana sem stoppar aldrei eða vera inni í herbergi með 20 sjónvörpum og öll stillt á mismunandi stöð. Ég er rosalega þakklát fyrir ofvirknina þótt ég hati hana stundum en ég er oft búin að þrífa íbúðina, þvo þvottinn, fara í ræktina og týna símanum mínum fimm sinnum FYRIR hádegi. Svo get ég líka talað rosalega hratt þannig að leiðinlegar samræður við leiðinlegt fólk verða rosalega stuttar þar sem ég sulla öllum mínum upplýsingum út á núll einni, nú eða ég geri manneskjunni ljóst um að mér finnist hún leiðinleg þar sem ég sé víst ekki þessa blessuðu línu sem má ekki fyrir yfir. Hvort sem það er, þá er þetta win win situation. Þar sem ég vil oft þjóta hratt yfir daginn þá get ég ekki sagt að ég sé smámunarsöm, þvílíkur léttir er það að geta skellt sér í krumpaða skyrtu eða í sokka með gat á tánum og vera alveg sama, þetta sparar tíma og þar að leiðandi mætti segja að ég sé strax einu skrefi á undan. Þar sem ég ulla óþarfa upplýsingum um sjálfa mig á fyrstu mínútunni sem ég hitti einhvern nýjan eins og t.d. þeirri staðreynd að ég er með inngrónar táneglur þá fæli ég strax fólk í burtu sem höndlar ekki mikilvæg málefni á borð við inngrónar neglur, en það er leiðinlegt vesen að díla við þær. Það aftur sparar tíma og óþarfa vesen, þar með má segja að ég græði helling af mínútum á hverjum degi með því að vera hin ofvirka ég. Sumir kvarta yfir því að þurfa fleiri klukkustundir í sólahringinn, klukkustundinar koma af náttúrunar hendi til mín, ég kvarta ekki yfir þessu.

Athyglisbresturinn á sér líka frábærar hliðar, ég er t.d. rosalega góð í því að líta út fyrir að vera að hlusta þegar ég er í raun að pæla í því hvar í andskotanum ég lagði bílnum, ég er orðin svo góð í þessu að ég er með settan spurningalista sem hentar við öll tilefni til þess að virðast vera mjög áhugasöm. Þetta er mjög hentugt þegar ég er föst í samræðum sem mér leiðast, ég get sýnt áhuga en planað kvöldmatinn á sama tíma, það má segja að ég sé búin að mastera þann eiginleika að geta gert tvo hluti í einu. Talandi um hvar ég lagði bílnum, þá labba ég óþarflega mikið í leit af bílnum, stundum kemst ég að þeirri niðurstöðu að ég kom ekki á bíl, allavegana, þá er auka hreyfing ekkert nema holl, ég tek þessu fagnandi. Ég er líka uppfull af hugmyndum, sögum og allskonar uppgötvunum þar sem hausinn á mér stoppar aldrei og mig hlakkar rosalega til þess að sjá hvað ég get gert við þennan haus minn. Athylgisbresturinn hjálpar mér líka mikið þegar ég t.d. sit á biðstofum en ég get horft á kuskið á gólfinu endalaust lengi og skemmt mér konunglega og þar að leiðandi verður biðin styttri og skemmtilegri ef maður hunsar þá staðreynd að nafnið þitt hefur verið kallað upp yfir 5 sinnum þegar þú loksins missir áhuga á kuskinu.

Ég þakka lyfjagjöf fyrir margt líka – það eru til mörg stig af AMO – ég er “þetta er borðlagt” case og það er allt í lagi. Ég er loksins farin að geta skrifað, ég skrifa og ég skrifa. Hugmyndinar eru farnar að taka á sig mynd í stað þess að vera eins og flækt garn í hausnum á mér. Þetta er líka oft erfitt og pirrandi en þú verður bara að hafa húmor fyrir sjálfum þér og þeim asnalegu hlutum sem þú framkvæmir eða lætur út úr þér en mikilvægast er að notfæra þér það hugmyndaflug sem þú hefur í eitthvað gáfulegt.
Takk AMO.

 

Ert þú penni?
Ef að það leynist penni innra með þér eða eitthvað brennur sérstaklega á þér um málefni líðandi stundar, komandi stundar eða liðinnar stundar, þá skaltu ekki hika við að senda á okkur fyrirspurn. Hvort sem um er að ræða frétt, afþreyingarefni, pistil eða annað sem þér dettur í hug getur þú sent það á kaffid@kaffid.is eða hafa samband á Facebook síðunni okkar.

VG

UMMÆLI

Sambíó