Listasafnið

Tónleikaserían UPPINN komin af stað – Skapa vettvang fyrir akureyrsku grasrótinaMiomantis fóru á kostum á fyrstu tónleikum Uppans. Ljósmynd: Daníel Starrason.

Tónleikaserían UPPINN komin af stað – Skapa vettvang fyrir akureyrsku grasrótina

Þann 7. Mars síðastliðinn fóru fram tónleikar á skemmtistaðnum Vamos. Þar stigu á stokk söngvararnir Atli og Malen, auk þungarokks hljómsveitarinnar Miomantis. Að sögn skipuleggjanda gengu tónleikarnir glæsilega. Um var að ræða fyrstu tónleika í nýju tónleikaseríunni UPPINN, en næstu tónleikar verða næsta föstudag, 21. Mars. Serían heldur svo áfram í apríl og verða haldnir tónleikar á efri hæðinni á Vamos klukkan 21:00 annan hvern föstudag. Frítt verður inn á alla tónleika. 

Rokk hljómsveitin Supersport kemur fram á næstu tónleikum Uppans. Nýjasta plata þeirra, ‚allt sem hefur gerst,‘ var valin rokk plata ársins á íslensku tónlistarverðlaununum í vikunni. Þorsteinn Kári er tónlistarmaður frá Djúpadal í Eyjafirði og mun líka leika listir sínar á föstudaginn. Plakatið og allt annað markaðsefni Uppans er gert af Tómasi Leó Halldórssyni.

Tónleikaserían er sett upp af Halldóri Kristni Harðarsyni, Birgi Erni Steinarssyni og Daníel Andra Eggertssyni. Allir eru þeir tónlistarmenn sjálfir og ganga undir listamannanöfnunum KÁ AKÁ (Halldór), Biggi Maus (Birgir) og Dandri (Daníel). Sá síðastnefndi ræddi við Kaffið um verkefnið á dögunum. 

Vettvangur fyrir grasrótina

Daníel segist hafa velt hugmyndinni fyrir sér undanfarin fimm ár, en hún ekki farið almennilega af stað fyrr en hann gekk til liðs við Bigga og Halldór. Markmiðið með Uppanum segir hann vera að efla tónlistarmenningu á Akureyri með því að skapa raunverulega senu fyrir grasrótina, sem þeim finnst hafa vantað: „Þetta snýst um að búa til suðupott fyrir tónlistarfólk að þróa sig áfram, við viljum búa til alvöru “senu” á Akureyri.“ Tónleikaserían er skýrð í höfuðið á gömlum skemmtistað hér á Akureyri, en Daníel segir það líka vísa til þess að henni er ætlað að vera uppspretta nýrrar tónlistar. „Svo eru tónleikarnir auðvitað líka uppi á efri hæðinni,“ bendir hann á.

Daníel segir að þeir sem komi fram á Uppanum séu í grunnin bara það tónlistarfólk sem vill fá að spila þar, burt séð frá vinsældum eða tónlistarstefnu. Á næstu tónleikum verður indí og rokk fýlingur, en í apríl koma fleiri rapparar fram og þannig fram eftir götunum. Með því að hleypa að bæði landsfrægu fólki og nýliðum sem eru að stíga sín fyrstu skref býður Uppinn upp á einstakt tækifæri fyrir upprennandi tónlistarfólk á Akureyri til þess að koma sér á framfæri. 

Serían gefur upprennandi tónlistarfólki þó ekki aðeins tækifæri til þess að stíga á svið, heldur líka til þess að mynda tengslanet sín á milli. Daníel segir aragrúa tónlistarfólks og hljómsveita á Akureyri sitja í bílskúrum og herbergjum víðsvegar um bæinn. Uppinn gegnir því mikilvæga hlutverki að safna þeim saman. 

Ekki bara gott fyrir tónlistarfólkið

Daníel leggur áherslu á að það sé að sjálfsögðu ekki bara tónlistarfólk sem muni koma til með að njóta góðs af tónlistarseríu sem þessari, heldur bæjarbúar allir. Akureyringar hafa hér aðgang að fríum tónleikum á tveggja vikna fresti. Að bjóða upp á eitthvað nýtt og spennandi fyrir tónlistarunnendur á Akureyri er eitt af markmiðum Uppans, segir Daníel. Tónleikagestir fá tækifæri til þess að uppgötva nýja og spennandi tónlist, en einnig munu þekktir tónlistarmenn koma til með að koma fram. Það virðist allt stefna í blómatíð í akureyrsku tónlistarlífi, því Daníel segir fleiri en hundrað tónlistarmenn og hljómsveitir þegar hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt. Það er vissulega langur biðlisti en þeir sem bíða hafa enga ástæðu til að örvænta. Skipuleggjendur Uppans ætla sér að halda tónleikunum gangandi „eins lengi og við hugsanlega getum og nennum.“ Það sést langar leiðir af þeirri ástríðu sem skipuleggjendurnir sýna verkefninu að þetta er hvergi nærri búið. 

Uppstillingin byggir á svokölluðum „showcase“ tónleikum sem þekkjast erlendis. Hver tónlistarmaður eða hljómsveit er á sviði í tvö til þrjú korter og hleypir svo næsta að. Daníel segist miða við að á hverjum tónleikum komi fram tveir eða þrír upprennandi akureyrskir tónlistarmenn og einn að sunnan, upprennandi eða þekktari. Þannig tengir Uppinn ekki aðeins saman tónlistarfólk á Akureyri, heldur tengir einnig saman senurnar beggja megin heiða. 

UPPINN er ‚passion project‘ af hálfu skipuleggjanda, en þeir hafa að sjálfsögðu ekki gert allt upp á eigin spýtur. Daníel vildi þakka þeim sem lagt hafa hönd á plög hingað til. Eyþór Alexander Hallsson er hljóðmaður verkefnisins, Exton hefur skaffað hljóðkerfi, Akureyri backpackers hefur hýst tónlistarfólkið, Kaffibrennslan skaffað kaffi og Geimstofan hannað fána fyrir verkefnið. Að lokum þakkar Daníel þeim sem mættu á fyrstu tónleikana og vonast auðvitað til þess að sjá enn fleiri næsta föstudag.

Sambíó
Sambíó