NTC

„Ný nálgun í íslenskukennslu“ – Samvinnuverkefni SÍMEY og Bara tala blandar stafrænu námi og kennslu með kennaraBara tala er íslenskukennsluforrit sérstaklega hannað fyrir vinnumarkaðinn

„Ný nálgun í íslenskukennslu“ – Samvinnuverkefni SÍMEY og Bara tala blandar stafrænu námi og kennslu með kennara

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) og Bara tala ehf. hefja nú samstarfsverkefni með það að markmiði að samnýta kennslufræði SÍMEY og stafræna nálgun Bara tala. Bara tala er stafræn íslenskukennsla sem er sérstaklega hönnuð fyrir vinnumarkaðinn og var valin Menntasproti atvinnulífsins í febrúar 2024.

Í fréttatilkynningu frá Bara tala segir að samstarfið miði að því að þróa einstaka blöndu af stafrænu námi og kennslu með kennara, með það að markmiði að gera íslenskukennsluna árangursríkari og aðgengilegri fyrir innflytjendur, ásamt því að styrkja kennslufræðina hjá báðum aðilum.

Við erum stolt af þessu samstarfi og hlökkum til að vinna með SÍMEY. Þekking þeirra á að kenna íslensku sem annað mál er ómetanleg, og við sjáum mikla möguleika í því að aðlaga menntatækni lausnina okkar að þeirra kennsluháttum. Með slíkri þverfaglegri nálgun getum við náð enn lengra,“ segir Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Bara tala, í tilkynningunni.

Svar við ráðleggingum OECD

Í tilkynningu segir að samstarfið svarar kalli nýjustu úttektar OECD sem leggur áherslu á að bæta inngildingu innflytjenda og gera íslenskukennslu aðgengilegri. Verkefnið byggir á nýstárlegri blöndu af kennslu með kennara og stafrænni nálgun, sem leysir mikilvægar áskoranir fyrir innflytjendur með sveigjanlegu einstaklingsmiðuðu námi. Með því að auka aðgengi að íslenskunámi, sér í lagi fyrir þá sem eru í vaktavinnu, búa á landsbyggðinni eða fjarri menntastofnunum, stefnir verkefnið að því að skapa betri tækifæri fyrir innflytjendur til að tileinka sér tungumálið og þannig auka líkur á að innflytjendur fái störf sem hæfa menntun þeirra og reynslu.

Bara tala verði að hágæða námi

Í samstarfi við kennara SÍMEY, sem hafa langa reynslu í að kenna íslensku sem annað mál, er unnið að því að efnið í Bara tala standist hæfniviðmið Evrópska tungumálarammans. Með reglulegri endurgjöf frá kennurum er námsefnið stöðugt þróað og bætt, sem stuðlar að því að kennarar geti nýtt Bara tala sem öflugt og áhrifaríkt kennslutól fyrir nemendur sína.

Þetta er átak sem margir koma að til að skapa heildstæða umgjörð um íslenskunemann. Við hjá SÍMEY höfum verið að vinna með hugmyndafræði Evrópska tungumálarammans undanfarin ár og teljum stafræna lausn sem þessa styðja einkar vel þá vinnu, bæði til að auka tæknilæsi nemenda en líka til að mæta betur ólíkum þörfum nemendahópsins okkar. Samstarfið við Bara tala ehf. er staðfesting á mikilvægi þess að takast á við áskoranir innflytjenda með nýjum og skapandi leiðum, sem styrkja inngildingu og skapa fjölbreyttara og sterkara samfélag á Íslandi,” segir Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri SÍMEY á vef stofnunarinnar. Hún bætir við að þetta samstarf hefði ekki verið mögulegt án aðkomu stafsmenntasjóðanna Ríkismenntar, Landsmenntar, Sveitamenntar og Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks.

Nemendur hjá SÍMEY.
VG

UMMÆLI

Sambíó