Börn eiga skilið frí frá áreitni síma í skólanum

Börn eiga skilið frí frá áreitni síma í skólanum

Skúli Bragi Geirdal skrifar

UNESCO hefur nú lagt það til að snjallsímar eigi einungis heima í kennslustofum þegar að þeir styðja við nám. Um er að að ræða gríðarlega mikilvægt og löngu tímabært innlegg í umræðuna!

98% barna og ungmenna 9-18 ára á Íslandi eiga síma

Næstum öll börn á Íslandi eiga síma en samt ekki alveg…Oft eru þetta  misgóðir símar, enda fyrsti síminn oft á tíðum gamall sími sem foreldrar eru hættir að nota. Ef símar eru nauðsynlegt námsgagn þá er ljóst að hér sitja ekki öll börn við sama borð. Í mörgum skólum hér á landi eru þó til aðrar tölvur eins og spjaldtölvur sem hægt er að nota við kennslu. Í tölvum sem skólinn á og býr yfir er hægt að stjórna hvaða öpp er notuð og hversu mikið  áreitið er. Símar í einkaeigu bæta við utanaðkomandi áreiti, söfnun persónuupplýsinga, aðgengi að óviðeigandi efni og öppum sem börn hafa hvorki aldur né þroska til að nota.

Símabann þarf ekki að vera algjört

Það er algengur misskilningur að við sem styðjum reglur og ramma um notkun snjalltækja séum á móti notkun á stafrænni tækni og lausnum. Annaðhvort erum við í hópnum sem vill leyfa síma í öllum skólum eða banna þá með öllu. Umræðan ætti þó ekki að vera svarthvít. Okkur öllum er fyrst og fremst umhugað um heilbrigða og ábyrga notkun snjalltækja. Símabann þarf ekki að vera algjört, það má útfæra slíkt með því að setja skýrar reglur. Slíkar reglur ættu eins og aðrar reglur í skólastarfi að miða að velferð og vernd barna. Við erum ekki öll eins og því hentar ekki einn og sami ramminn öllum, sérúrræði ættu þá að sjálfsögðu að vera til staðar fyrir þá sem þess þurfa.

Erum við að bjóða uppá nógu mikla fræðslu um þessi mál?

Fræðsla um ábyrga notkun snjalltækja og miðlalæsi í nútíma samfélagi er jafn nauðsynleg og að kenna umferðarreglurnar. Notkun er ekki sama og fræðsla. Ef við viljum leyfa síma þá þurfum við líka að spyrja okkur að því hvort við séum að gera nóg til þess að fræða og kenna. Frá þeim tíma þegar að ég byrjaði að taka mín fyrstu skref fóru foreldrar mínir að kenna mér umferðarreglurnar. Ég lærði á umferðarljósin, þýðingu umferðaskilta, fór í ökuskóla og á endanum fékk ég bílpróf 17 ára. Þetta ferli var tekið í skrefum með mismunandi fræðslu í hverju skrefi. Reglurnar eru til staðar til þess að vernda bæði mig og aðra. Með því að rétta börnum síma með óheftu aðgengi að neti og gervigreind mætti segja að við séum að setja þau undir stýri án þess að þau hafi bílpróf. Slíkt háttarlag getur endað með árekstri.

Freistingin er alltaf til staðar með símann í vasanum

Við sem eldri erum ættum líka að spyrja okkur áleitinna spurninga. Getum við horft á heila bíómynd, setið með vinum í matarboði, farið út í göngutúr eða legið á ströndinni í sólbaði án þess að kíkja á símann okkar? Ef við svörum þessari spurningu neitandi, hvað með börn sem mæta í skólann með símann í vasanum?

Í sumar var ég að vinna í Vísindaskóla unga fólksins, þar sem ég lagði fyrir þau það verkefni að skipuleggja heilan dag án síma og nettengingar. Langflest áttu í erfiðleikum með að ljúka því sjálf. Með samtali og umræðum settum við upp heilan ónettengdan dag saman. Öll voru börnin sammála um að þeim myndi líða vel á slíkum degi. Að sama skapi voru þau flest sammála um að ef þau fengju að vera eins mikið og þau vildu í tölvum og símum þá myndi það enda með höfuðverk og vanlíðan.

Vantar fleiri skákborð og spil!

„Ég fer oft bara í símann því allir eru í símanum“ sagði nemandi við mig í skóla þar sem mátti vera með símann á sér öllum stundum. Mikill félagslegur þroski á sér stað í frímínútum og því mikilvægt að við horfum ekki einungis á símnotkun inni í skólastofunni. Skólar sem ég hef heimsótt með fræðsluerindi þar sem símar eru ekki leyfðir í frímínútum standa frammi fyrir því lúxusvandamáli að það vanti fleiri skákborð, borðtennisborð og spil því þar eru allir að leika sér og tala saman.

Það kemur mér alltaf á óvart hvað börnin eru tilbúin sjálf að setja sér reglur um eigin símnotkun þegar að ég ræði við þau að loknum fræðsluerindum. Það er vel hægt að útfæra takmarkanir á símnotkun í skólastarfi með þeim hætti að hægt sé að nálgast símana þegar að það á að nota þá sérstaklega í kennslu og aðrar tölvur ekki tiltækar. Það er hægt að vera með box eða hólf fyrir símana þar sem þeir eru geymdir nema það sé þörf á þeim. Eins og hér áður fyrr er sími inni á kennarastofu sem hægt er að hringja í þegar að upp koma neyðartilfelli.

Árið er 2023. Gervigreindin er mætt til leiks og við spólum enn í sömu hjólförunum í umræðunni um síma í skólum…

  • 60% barna á aldrinum 9-12 ára á Íslandi eru með aðgang á Snapchat og TikTok. Aldurstakmarkið þar er 13 ára.
  • 2014 töldu 81% barna á Íslandi í 8.-10. bekk andlega heilsu sína góða eða mjög góða. Á síðasta ári var þetta hlutfall komið undir 60%.
  • 2022 sögðust 27% stúlkna í 10. bekk vera ánægðar með líf sitt, það hlutfall hefur hrapað á nokkrum árum úr 40%.
  • Aldrei hafa fleiri börn verið með uppáskrifuð svefnlyf.
  • Í 8.-10. bekk grunnskóla hafa 51% stúlkna og 22% stráka verið beðin um að senda af sér nektarmynd.
  • Fjórðungur nemenda á unglingastigi hefur rekist á umræður um leiðir til að grenna sig verulega (t.d. með lotugræðgi og lystarstoli).
  • Fimmtungur nemenda á unglingastigi hefur séð hatursskilaboð gagnvart minnihlutahópum, áætlanir um slagsmál og leiðir til að skaða sig líkamlega.
  • Stúlkur fá frekar auglýsingar á netinu um útlitsaðgerðir (t.d. brjóstastækkanir, rassastækkanir og nefaðgerðir), andlitsmeðferðir (t.d. bótox, fylliefni og nálastungur), megrunarvörur og sólbaðsstofur heldur en drengir.

Embætti Landlæknis í Bandaríkjunum hefur gefið út álit þess efnis að samfélagsmiðlar séu skaðlegir börnum og að of mikil notkun þeirra leiði til meiri hættu á geðrænum vandamálum seinna á lífsleiðinni.

  • 16,5 prósent Íslendinga á aldrinum 18 til 24 flosnuðu upp úr námi á árinu 2022 sem er hæsta hlutfall brottfalls í Evrópu. Á sama tíma og við horfum á versnandi tölfræði yfir andlega heilsu ungmenna og yfirkeyrslu dópamíns í tölvuleikjum þar sem skólinn bliknar í samanburði.
  • 60% barna á aldrinum 9-12 ára fengu aðstoð frá foreldrum til að stofna aðgang á samfélagsmiðlum þrátt fyrir að þar gildi 13 ára aldurstakmark.
  • 13 ára aldurstakmarkið er meingallað og sett til að vernda hagsmuni samfélagsmiðlafyrirtækjanna en ekki til að vernda börn og ungmenni. Ef við tökum áreiti frá ókunnugum, aðgang að skaðlegu efni og þroska barna inn í reikninginn þá ætti aldurstakmarkið að vera hærra.
  • Þriðjungur barna á aldrinum 9-12 ára segir foreldra sína aldrei athuga hvað þau skoði á netinu.
  • Við höfum sett varnagla á algóritma sem notaðir eru í fjármálakerfinu til að koma í veg fyrir kerfishrun… ekki á algóritma samfélagsmiðla sem hafa áhrif á lýðræði, lýðheilsu og þjóðaröryggi. Við pössum því peningana okkar betur en börnin okkar!

Höfundur er verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd

Meira efni:

Börn og netmiðlar (2021) – Fjölmiðlanefnd og Menntavísindastofnun HÍ

UNESCO – Smartphones in school? Only when they clearly support learning

Embætti Landlæknis í Bandaríkjunum – Social Media and Youth Mental Health

Mest brottfall í Evrópu (2023) – Vísir

Rannsóknir og greining – ungt fólk 2020

VG

UMMÆLI

Sambíó