Landsliðsmaðurinn og Þórsarinn Tryggvi Snær Hlinason mætti á körfuboltanámskeið sem haldið var til styrktar æfingaferð meistaraflokks kvenna Þórs í körfubolta. Þetta kemur fram á vef Þórs.
Ágóðinn af námskeiðinu rennur upp í kostnað við æfingaferð meistaraflokks kvenna. Kvennalið Þórs mun leika í Subway-deildinni, efstu deild Íslands, á næsta tímabili. Hópurinn hefur verið að safna sér upp í ferðina með harðfisksölu, happdrætti og fleiru undir dyggri stjórn þjálfara síns, Daníels Andra Halldórssonar.
Á námskeiðinu var skipt í tvo hópa, þau yngri (2012-2017) voru fyrir hádegið, en þau eldri (2007-2011) eftir hádegið. Um 70 krakkar mættu í íþróttahús Glerárskóla til að fá leiðsögn í körfubolta, leika sér og hitta Tryggva Snæ. Það var greinilegt að Tryggvi naut sín í hlutverki þjálfarans í samstarfi þjálfara körfuknattleiksdeildarinnar. Fleiri myndir má sjá á vef Þórs.
UMMÆLI