Í febrúar mun tónlistarfólk flytja ný lög Þórunnar Guðmundsdóttur á Eyjafjarðarsvæðinu undir yfirskriftinni Eyrnakonfekt. Tónleikarnir hafa vakið mikla lukku á höfuðborgarsvæðinu hingað til en fyndnum orðaleikjum og klassískri tónlist er teflt saman.
„Fólk er meira og minna hlæjandi allan tímann. Það kemur fólki skemmtilega opna skjöldu að tefla þessu tvennu saman,“ segir Erla Dóra Vogler sem er hluti af hópnum.
Ásamt Erlu Dóru eru þau Björk Níelsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Hafsteinn Þórólfsson og Eva Þyri Hilmarsdóttir hluti af hópnum.
„Á tónleikunum flytjum við fjöldan allan af samsöngslögum (dúetta, tríó og kvartetta). Lögin eru öll fyrir söngvara og píanó og skiptast í þrjá flokka eftir efni: Sumarlög, Matarlög og Lög um ástina. Flestir textarnir eru bráðhlægilegir. Orðaleikir og húmor eru allsráðandi, auk þess sem tónlistin er á léttum nótum og flytjendur nógu ruglaðir til að gera eitthvað skemmtilegt úr öllu sem lagt er fyrir þá,“ segir Erla.
Tónleikarnir verða haldnir í:
Bergi, Dalvík 19. feb kl. 16:00 sem hluti af tónleikaröðinni Klassík í Bergi https://www.facebook.com/events/453851246461723
Hofi, Akureyri 20. feb kl. 16:00 sem hluti af tónleikaröð Tónlistarfélags Akureyrar https://www.facebook.com/events/223206763241234
Þórunn Guðmundsdóttir, söngkona sem er deildarstjóri söngdeildar klassísku deildar MÍT, semur bæði texta og tónlist, en hún hefur getið sér gott orð fyrir bæði tónverk og sviðsverk (leikrit og óperur). Verk Þórunnar hafa m.a. hlotið eftirfarandi gagnrýni:
26. mars 2007. Af vef Bandalags íslenskra leikfélaga, Guðfinna Gunnarsdóttir (um „Epli og eikur“)
Leikur að orðum er aðalsmerki Þórunnar og fatast henni ekki flugið í þessu verki, kímnin drýpur af hverri setningu og spurning hvort undirrituð þarf ekki að fara aftur til þess að ná að grípa allan textann, en það tekst ekki í fyrstu tilraun þar sem ekki er hægt að hlæja að öllu í einu. Tónlistin var skemmtileg, vel útsett og samstilling söngs og leiks góð.
UMMÆLI