Það er haugarigning og skítakuldi í lok september á Akureyri. Úti er farið að rökkva en allt í einu brýst út stjórnlaus gleði á Þórsvellinum. Lokaflaut dómarans gellur og sigurvíman tekur öll völd. Íslandsmeistaratitillinn er kominn í hús eftir lengsta Íslandsmót sögunnar. Það er ólýsanleg stund og merki um árangur þegar bikarinn hefst á loft fyrir framan troðfulla stúkuna á Þórsvellinum. Menn fallast í faðma, gleðjast og furðu margir fá allt í einu rykkorn í augað. Titillinn er ekki bara okkar, hann er titill bæjarins og allra Akureyringa. Við erum dætur Akureyrar.
Þeir sem að þekkja okkur, leikmenn Þórs/KA, vita hversu mikið við höfum lagt á okkur í vetur og undanfarin ár til þess að ná þeim árangri sem vannst með Íslandsmeistaratitlinum. Ég get ekki með nokkru móti talið alla þá klukkutíma sem við höfum nýtt í æfingar, fjáraflanir og rútuferðir í leiki en mörgum finnst þetta taka allt of mikinn tíma og skilja ekki hvernig við nennum þessu. Á endanum er það allt þess virði og ég myndi ekki skipta því út fyrir neitt þegar maður fær loksins bikarinn í hendurnar fyrir framan bestu stuðningsmenn landsins.
Donni mætir á svæðið
Eftir síðasta tímabil urðu þjálfaraskipti hjá liðinu, Jói og Moli sögðu þetta gott og meistarar miklir, Donni og Andri, tóku við keflinu. Þeir voru óreyndir í þjálfun kvenna en voru fljótir að bræða hjörtu okkar. Það var ljóst strax í upphafi að nýja þjálfarateymið ætlaði sér gríðarlega stóra hluti enda talaði Donni ekki um neitt annað allt undirbúningstímabilið en að við ætluðum að verða Íslandsmeistarar. Þetta hamraði hann inn í hausinn á okkur og efast ég um að jafn stíf innræting hafi nokkurn tímann verið stunduð á jörðinni, nema kannski í Norður-Kóreu. Einnig bættust ný andlit í leikmannahópinn en Bryndís Lára markmaður ákvað að slá til og skellti sér norður í sæluna. Bianca Sierra bættist einnig í hópinn og svoleiðis smellpassaði í vörnina hjá okkur. Báðir þessir leikmenn voru mikill happafengur fyrir liðið.
Undirbúningstímabil – tímabil stanslausra æfinga og örfárra leikja
Þór/KA var mikið í sviðsljósinu á undirbúningstímabilinu og flestir muna eftir umræðunni um að slíta ætti samstarfinu milli Þórs og KA. Mikið var rætt og ritað um málið og óvissa ríkti um hver framtíð kvennaknattspyrnu á Akureyri yrði. Þrátt fyrir allt þetta umtal og óvissu um framtíð liðsins létum við það ekki trufla okkur. Við héldum okkar striki, mættum á skrilljón æfingar, settum okkur markmið og stefndum á að gera frábæra hluti saman í sumar. Ef eitthvað er þá hefur mótlætið styrkt okkur og gert okkur samheldnari en nokkru sinni.
Fyrir marga er undirbúningstímabilið erfitt. Leikir eru fáir og æfingar stundaðar dag eftir dag, ýmist í Boganum eða á Bjargi. Donni var með þá nýjung í vetur að hafa aukaæfingar í hádeginu þrisvar sinnum í viku fyrir þær sem komust. Það hefur klárlega skilað sér því eins og allir atvinnumenn segja, þá voru það aukaæfingarnar og aukafórnirnar sem skiluðu þeim framar öðrum.
Geta þær nokkuð?
Fyrir tímabil finnst sparkspekingum í fjölmiðlum gaman að spá fyrir gengi liða í deildinni komandi sumar. Síðustu tíu tímabil hefur Þór/KA aldrei lent neðar en í 4. sæti og það var einmitt sætið sem við enduðum í síðustu tvö tímabil. Fjölmiðlar bjuggust við að við héldum okkar sæti og spáðu Breiðabliki, Val og Stjörnunni fyrir ofan okkur.
Pepsídeildin hefst
Eftir langt og strangt undirbúningstímabil var loksins komið að fyrsta leik í Pepsídeildinni. Veislan hófst að þessu sinni 27. apríl og góð úrslit í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins og frábær stuðningur í upphafi móts gaf tóninn fyrir sumarið. Já, 1-0 sigrar gegn liðum sem var spáð ofar en við og hreint lak í þokkabót þar sem Bryndís átti stórleiki í markinu. Í kjölfar þessara frábæru sigra komu bara fleiri og í lok maí var rúmlega þriðjungur íslandsmótsinns búinn – við með fullt hús stiga og aðeins búnar að fá á okkur 3 mörk.
Spekingar voru í sjokki og efuðust um að liðið gæti haldið áfram á sigurbraut. Áfram hélt þó sigurgangan og fyrri hluti pepsídeildarinnar lauk með 1-0 sigri á FH á útivelli þar sem Karen María, 16 ára krúttið okkar skoraði sigurmarkið með skalla í uppbótartíma. Síðan voru stórleikir við Val og Breiðablik næst á dagskrá, og nú á útivelli. 1-1 jafntefli á Hlíðarenda og 2-1 sigur á Kópavogsvelli voru alveg ásættanleg úrslit. Þetta góða gengi kom okkur ekkert á óvart, en helsti skellur tímabilsins kom utan vallar skömmu síðar þegar umdeildur listi lak á netið.
Tveir skellir
Þrátt fyrir að ég hafi mætt á Rammsteintónleikana og Bryndís Lára hafi verið virk á Twitter þá dugði það ekki til að koma okkur á topp tíu listann yfir kynþokkafyllstu leikmenn deildarinnar. Enginn liðsmaður okkar komst á þennan lista en Hallgrímur Mar bjargaði heiðri Norðurlands með því að toppa karlalistann.
Við létum þetta ekki buga okkur, pöntuðum ferð til Hollands og vonuðumst eftir að komast í sólbað svo við yrðum nú sólbrúnar og sætar eins og Grímsi. Rétt áður en við skelltum okkur út þá vorum við slegnar út úr bikarkeppninni en bikarinn í meistaraflokki er víst eini titillinn sem við náðum ekki að krækja í þetta sumarið. Við gerðum þó góða ferð í Kópavoginn og slógum út ríkjandi bikarmeistara Breiðabliks, 3-1 í 16-liða úrslitum. Í næstu umferð drógumst við svo gegn Stjörnunni á útivelli 8-liða úrslitum. Sá leikur tapaðist 3-2 þar sem sigurmarkið kom rétt fyrir leikslok. Svekkjandi tap þar, en áfram gakk.
Áfram Ísland
Já, við stelpurnar í Þór/KA ákváðum að gera vel við okkur í ár og skella okkur í æfingaferð lengra en á Húsavík. Förinni var heitið til Hollands og var tilgangur ferðarinnar að skerpa á nokkrum hlutum inn á vellinum, slípa hópinn betur saman og auðvitað til að fylgjast með landsliðinu okkar á EM. Þar áttum við einn fulltrúa, fyrirliðann okkar Söndru Maríu, sem náði að troða sér í liðið eftir að hafa náð einhverjum ótrúlegasta bata á krossbandsslitum sem sögur fara af. Donni mætti með alla fjölskylduna í ferðina og var Hilmar, tveggja ára sonur hans, allra vinsælasti töffarinn á svæðinu og bræddi hjörtu okkar leikmannanna.
Þessa viku sem við vorum úti æfðum við eins og atvinnumenn þar sem Donni og Andri voru með tvær æfingar á dag flesta dagana. Þá kíktum við á tvo landsleiki sem var mikið fjör og skemmtileg upplifun. Það sem við eigum eftir ferðina eru margar góðar minningar og sögur sem fá ekki að líta dagsins ljós hér.
Aftur í bardagann
Alvaran tók aftur við í ágúst, þegar Fylkir mætti í heimsókn á Þórsvöll. Leikurinn endaði 3-3 þar sem við björguðum stigi í blálokinn. Ef við hefðum fengið sigur í þeim leik hefði mótið líklega klárast mun fyrr en raunin varð. Tveir sigurleikir gegn Haukum og KR komu okkur aftur á beinu brautina en svo kom skellurinn, 3-2 tap í Eyjum. Ég vil ekki fara nánar út í þann leik en við náðum að sýna okkar rétta andlit strax í næsta leik þar sem við unnum Stjörnuna 3-0 á heimavelli fyrir framan um 720 áhorfendur.
Þá var bara að vinna einn leik í viðbót og titillinn yrði okkar. Við héldum af stað til Grindavíkur í von um að ná í sigurinn þar. Í stuttu máli þá tapaðist sá leikur 3-2 þar sem sundbolti og dýfingar voru meira áberandi en fótbolti, svo blautur var völlurinn. Þá var það bara að klára þetta í síðustu umferð á heimavelli þar sem ekkert annað en sigur var í boði.
Stuðningurinn skipti sköpum
Stóri dagurinn var síðan þann 28. september. Dagur sem við munum aldrei gleyma. Um 1400 frábærir stuðningsmenn í stúkunni mættir til að hjápa okkur að ná í síðustu stigin sem myndu endanlega tryggja okkur titilinn. Stemmingin var trufluð og það ætlaði allt um koll að keyra þegar Sandra María skoraði fyrsta mark leiksins. Ég man að Natalía réði ekki við sig og spilaði seinasta korterið hálf skælandi þar sem tilfinningarnar og spennan voru að fara með hana. Mark að hætti Borgarstjórans stuttu síðar endanlega gulltryggði sigurinn og brjáluð fagnaðarlæti brutust út þegar flautað var til leiksloka.
Fagnaðarlætin voru svo mikil að þau heyrðust heim til afa míns sem býr við Skógarlundinn. Titillinn loksins tryggður og bikarinn hófst á loft við mikinn fögnuð viðstaddra. Þetta er ógleymanleg stund. Það er ekki hægt að lýsa því almennilega hveru frábæran stuðning við höfum fengið í allt sumar. Á útileikjum voru oft á tíðum fleiri stuðningsmenn okkar mættir en heimaliðsins og létu þeir alltaf vel í sér heyra. Til gamans má geta að yfir 560 manns mættu að meðaltali á heimaleikina okkar í sumar sem er stórkostlegt og sýnir hversu trygga stuðningsmenn við eigum.
Framhaldið
Nú hafa Bianca og Sandra Mayor ákveðið að spila áfram með okkur næsta sumar sem er mikið fagnaðarefni þar sem þær smellpassa í hópinn. Það er alls ekki leiðinlegt að hafa svona sterka leikmenn og karaktera með sér inni á vellinum og þær hjálpa okkur mikið á æfingum og í leikjum og gera aðra leikmenn í kringum sig betri. Þær hafa stundum nefnt það við okkur að þær geti vel hugsað sér að setjast að hérna á Akureyri og ala upp börnin sín þegar þar að kemur – svo vel líður þeim hérna.
2. flokkurinn okkar sem spilar undir merkjum Þór/KA/Hamranna átti einnig frábært sumar og eru tvöfaldir meistarar. Já, þær gerðu sér lítið fyrir og hirtu báða titlana sem í boði voru og eru því Íslands- og bikarmeistarar. Það verður mjög spennandi að fylgjast með þessum efnilegu stelpum í framtíðinni og þær munu líklega margar hverjar spila stórt hlutverk í meistaraflokksliði Þórs/KA á allra næstu árum. Þær eiga alla möguleika á því að verða frábærar knattspyrnukonur því þær hafa hæfileikana, metnaðinn og hugarfarið sem fleytir þeim langt.
Í dag er Þór/KA sigursælasta knattspyrnulið Akureyrar, en tveir Íslandsmeistaratitlar á síðustu 5 árum hafa skilað okkur þeirri nafnbót. Þessi magnaði árangur hefði líklega aldrei náðst ef ekki væri fyrir allt það frábæra fólk sem starfar í kringum liðið. Liðið býr nefnilega svo vel að hafa einn Nóa Björnsson innanborðs sem hefur unnið ómetanlegt og gott starf síðustu 14 ár fyrir Þór/KA og lyft liðinu á þann stall sem það er í dag. Með honum starfa síðan foreldrar leikmanna í kvennaráði og leggja þau öll gríðarlega mikla og óeigingjarna vinnu á sig svo við fótboltastelpurnar getum gert það sem okkur finnst skemmtilegast, að æfa og spila í geggjaðasta liði landsins.
Takk fyrir ógleymanlegt sumar, I love you guys.
Fyrir hönd Þór/KA,
Lára Einarsdóttir.
Sjá einnig:
UMMÆLI