Stærsta pílukastmót landsins, SjallyPally 2025, fór fram í Sjallanum helgina 4.-5. apríl þar sem 222 keppendur öttu kappi fyrir troðfullu húsi. Alls söfnuðust 580.000 krónur fyrir Hetjurnar, félag langveikra barna á Norðurlandi, með góðgerðarleik þar sem 116 sinnum var kastað 180 stigum (5.000kr fyrir hvert).
Alexander Veigar Þorvaldsson og Ingibjörg Magnúsdóttir unnu í sínum flokkum og Árni Gísli Sigurðsson sigraði í Forsetabikarnum. Stemningin var mikil og þá sérstaklega þegar pílugoðsagnirnar John McDonald og Russ Bray voru kynntir á svið á lokakvöldinu.
„Frábært mót, frábært lokakvöld, frábær mæting, frábært pílukast, stjórn Píludeildar Þórs er ennþá í skýjunum,“ segir á vef Þórs þar sem hægt er að lesa frekari samantekt frá mótinu.