Ynjur komust aftur á sigurbraut í Hertz-deild kvenna í íshokkí í gær þegar þetta yngra lið Skautafélags Akureyrar gerði góða ferð til Reykjavíkur og vann fimm marka sigur á Birninum í Egilshöll.
Ynjurnar voru lengi í gang og komust heimakonur yfir strax á þriðju mínútu með marki Sigrúnar Árnadóttur. Silvía Björgvinsdóttir sá hinsvegar til þess að Ynjur ynnu fyrsta leikhlutann því hún skoraði tvö mörk á síðustu tveim mínútum leikhlutans.
Sigrún reyndist Ynjum erfið því henni tókst að jafna metin fyrir heimakonur í öðrum leikhlutanum og var staðan að honum loknum 2-2.
Í þriðja leikhlutanum stigu Ynjur svo á bensíngjöfina og algjörlega rúlluðu yfir Bjarnarkonur með því að vinna leikhlutann 0-5. Lokatölur því 2-7 fyrir Ynjum sem tróna á toppi deildarinnar sem fyrr.
Markaskorarar Ynja: Silvía Björgvinsdóttir 5, Ragnhildur Kjartansdóttir 1, Kolbrún Garðarsdóttir 1.
Markaskorari Bjarnarins: Sigrún Árnadóttir 2.
UMMÆLI