Öskudagurinn er á morgun og munu börn bæjarins því klæða sig upp í búninga og heimsækja fyrirtæki og verslanir bæjarins. Börnin syngja fyrir starfsfólk og fá að launum góðgæti fyrir. Akureyri hefur löngum verið þekkt fyrir skemmtilegan öskudag og mörg börn annars staðar af landinu gera sér ferð til Akureyrar við þetta tilefni. Flest öll fyrirtæki, stofnanir og verslanir bæjarins taka þátt í öskudeginum en búast má við að börnin leggi af stað snemma í fyrramálið en oftast er orðið lítið eftir að góðgæti um hádegisbilið og því öruggara að vera snemma í því.
Á Glerártorgi verður dagskrá frá 9-12 í tilefni dagsins. Það verður söngva- og búningakeppni þar sem keppt verður um besta einstaklingssönginn, besta/skemmtilegasta einstaklingsbúninginn, besta söng öskudagsliðs og skemmtilegustu búninga öskudagsliðs. Einnig verður kötturinn verður sleginn úr tunnunni.
Íbúar öldrunarheimilanna á Akureyri, Hlíð og Lögmannshlíð vilja gjarnan hlýða á söng og taka glöð á móti öskudagsliðum.
Í menningarhúsinu Hofi verður keppnin „Akureyri Gott Talent“ á sínum stað og stendur yfir frá klukkan 11-13. Skráning hefst í miðasölunni í Hofi kl. 9 og er takmarkaður fjöldi. Dómarar að þessu sinni verða Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, Sópran úr Núnó og Júníu og Rúnar Eff eurovisionkeppandi með meiru. Kynnar verða leikararnir Alexander Dantes og Bjarni Snæbjörnsson úr leikritinu Núnó og Júníu. Í verðlaun fyrir 1. sæti verður út að borða á Greifanum og miðar í leikhús, fyrir 2. sæti verða miðar í leikhús og fyrir 3. sæti verða bíómiðar í Borgarbíó og popp og gos.
UMMÆLI