Gæludýr.is

Völsungur harmar viðbrögð KSÍ

Völsungur harmar viðbrögð KSÍ

Völsungur sendi frá sér yfirlýsingu í dag, 13. september, þar sem þeir harma viðbrögð KSÍ. Kaffið birtir tilkynninguna í heild sinni:  

Í kjölfar yfirlýsingar okkar í Völsungi, símhringinga úr höfuðstöðvum KSÍ í kjölfarið þar sem við erum úthrópaðir og nú síðast hreint og klárt hótunarbréf frá KSI þar sem okkur er gefin vika í að bera hönd fyrir höfuð okkar, viljum við árétta að enginn frá Völsungi er að ráðast persónulega á einn eða neinn.
Dómari leiksins gerir vissulega mistökin og það er leitt. Við sárvorkennum honum að vinnuveitendur hans hjá sambandinu hafi ekki stutt hann og aðstoðað betur í kjölfar umræddra grundvallarmistaka. Auðvitað bar honum að skila inn skýrslunni eins og hann dæmdi leikinn. Annað er ólöglegt. Nú fær Völsungur tölvupóst á mánudeginum eftir leikinn um að skrifstofa KSÍ hafi í samráði við dómarann skráð skýrsluna vitlaust. Að Freyþór Hrafn Harðarson, leikmaður Völsungs, hafi bara fengið gult en ekki rautt.

Freyþór Hrafn Harðarson var rekinn út af á Seyðisfirði ranglega og um það verður ekki deilt. Allir eru sammála um það. Bæði lið, dómarar, eftirlitsdómari og KSÍ. Völsungur þurfti að leika hluta leiksins einum færri. Á þeim tíma skorar Huginn sigurmark. Tölvupóstur á mánudegi breytir engu þar um þó einhverjir á skrifstofu KSÍ telji sig vera að gera einhverjum greiða með að skrá leikskýrsluna vísvitandi vitlaust til að „hjálpa Völsungi“ svo leikmaðurinn fari ekki í bann. Skaðinn var skeður.

Mega allir á skrifstofu KSÍ hafa áhrif á það hvernig leikskýrslur eru skráðar?
Á þeim sólarhring sem leið frá leiknum og þangað til skýrslan var sett inn af dómara leiksins hefði KSÍ getað aðstoðað dómarann við að gera það sem rétt er. Senda inn skýrsluna af leiknum eins og hann var dæmdur. Senda svo með aukaskýrslu um leiðréttingu ef mistök voru augljóslega gerð og að dómari vildi ekki að leikmaðurinn fengi leikbann. Bara ekki breyta leikskýrslunni því það er bannað! Ekkert af þessu var gert og því fór sem fór. Í þrjár vikur beið Völsungur eftir því að KSÍ myndi vinna úr þessum leiðu mistökum og leiðrétta það sem ranglega var gert. Niðurstaða aga-og úrskurðarnefndar var í takt við önnur vinnubrögð í þessu máli. Viðbrögð KSÍ við fréttatilkynningunni eru í takt við nánast einu samskiptin sem hafa farið fram milli KSÍ og Völsungs á þessum þremur vikum. KSÍ gerir Völsung að „vonda kallinum“ í málinu og skammar nú félagið fyrir að „ráðast á ungan dómara í fjölmiðlum með svívirðingum“. Starfsmaður skrifstofu KSÍ hefur hringt í forsvarsmann Völsungs og beinlínis hrópað í símann að við séum lygarar og aldrei hafi nokkurt félag tekið dómara af lífi opinberlega jafn svívirðilega. Hér eru eðlilega flestir orðlausir.

Forsvarsmenn knattspyrnudeildar Völsungs ítreka því hér með að persóna Helga, dómara leiksins hefur á engan hátt neitt með málið að gera. Hér er ekki verið að ráðast gegn honum sem persónu. Allt tal í þá áttina úr höfuðstöðvum KSÍ verður því vísað rakleiðis aftur til föðurhúsanna því sambandið hefur haft nógan tíma til að standa með sínum dómara og aðstoða við að leiðrétta grundvallarmistök.

Fyrir hönd knattspyrnudeildar Völsungs
Haukur Eiðsson

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó