Í dag brautskráði VMA 116 nemendur en heildarfjöldi skírteina var 123 því sjö nemendur brautskráðust með tvö skírteini. Alls hefur skólinn því brautskráð 256 nemendur á þessu almanaksári því 140 nemendur voru útskrifaðir í maí sl.
Tónlistaratriði og viðurkenningablómvendir
Um tónlistaratriði við brautskráninguna sá annars vegar Hafdís Inga Kristjánsdóttir, sem er fyrrverandi nemandi við skólann og tók á sínum tíma þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd VMA, og hins vegar Svavar Máni Geislason, útskriftarnemi á fjölgreinabraut.
Tveir nemendur, Svavar Máni Geislason og Margrét Rún Stefánsdóttir, fengu afhentan blómvönd frá skólanum fyrir ríkulegt framlagt til félagslífs skólans á námstíma sínum.
Stefanía Tara Þrastardóttir, sem útskrifaðist í dag úr námi í hársnyrtiiðn, flutti ávarp útskriftarnema. Hægt er að lesa ávarpið hér.
Nýjar áskoranir – ný tækifæri
Sigríður Huld beindi orðum sínum til brautskráningarnema og bað þá m.a. um að horfa björtum augum til framtíðar og viðhalda þeirri vináttu sem hafi skapast á námstíma þeirra í VMA.
Sigríður sagði í ræðu sinni að erfið fjárhagsstaða skólans hafi haft áhrif á starfsmannahópinn við að ná fram markmiðum með nemendum. Ástæða sé þó til að horfa björtum augum til framtíðar með undirskrift fráfarandi ráðherra menntamála og bæjar- og sveitarstjóra um stækkun á húsnæði skólans, sem vonandi verði að veruleika á komandi ári, a.m.k. hönnunarvinnan.
„Framundan eru breytingar sem tengjast námi og kennslu. Við í VMA eigum að hafa okkar áhrif þar, við þurfum að efla nám og námstækifæri í okkar nærsamfélagi og ekki síður hlúa að okkur sjálfum, eflast í starfsþróun og taka nýjum áskorunum og tækifærum fagnandi. Það verður alltaf í okkar höndum að halda í mennskuna í tækniþróuðu framtíðarsamfélagi. Í heimi sem er sífellt að breytast er hlutverk kennara afar mikilvægt. Kennarastarfið mun seint hverfa algjörlega inn í heim sjálfvirkni og snjallvæðingu þótt tæknin sé sannarlega að breyta kennsluháttum og skólastarfi. Áhersla í skólastarfi verður að vera í þá átt að halda í tungumál okkar og menningu, efla samkennd og samvinnu, kenna meira um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegt samfélag og mismunandi menningarheima, kenna umburðarlyndi og efla jöfnuð og jafnrétti í víðum skilningi,“ sagði Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari.
Hægt er að lesa tilkynninguna frá VMA í heild sinni hér, ásamt myndum.
UMMÆLI