NTC

Vitundarvakning á alþjóða geðheilbrigðisdaginn 10.október

Vitundarvakning á alþjóða geðheilbrigðisdaginn 10.október

Grófin Geðrækt skrifar

Ert þú með lausa skrúfu?

Oft er grínast með það að fólk sem glímir við andleg veikindi séu með lausa skrúfu, jafnvel fleiri en eina. Hugmyndin að nafni á vitundarvakningu til að auka meðvitund okkar allra um að gæta vel að andlegri heilsu, efla forvarnir og minnka fordóma gagnvart andlegum veikindum, er einmitt sótt í þetta saklausa grín. Það eru notendur Grófarinnar Geðræktar á Akureyri sem standa að baki Lausu Skrúfunni og er það eitt valdeflandi nýsköpunarverkefna sem þar er unnið. Því er ætlað að bæta samfélagslega vitund okkar allra um mikilvægi þess að hugsa vel um sína andlegu heilsu, hlúa að og rækta sem forvörn. Einnig að hjálpa fólki að leita sér aðstoðar þegar þess er þörf og í því samhengi að berjast gegn sínum innri fordómum ekki síður en ytri.

Lausa skrúfan er vitundarvakning en henni er einnig ætlað að vera fjáröflun til að styrkja rekstur Grófarinnar sem er eina opna geðræktin á Norðurlandi. 

Takist það verður lögð áhersla á að mæta brýnni þörf á valdeflandi úrræðum fyrir fólk með geðraskanir á öllu Norðurlandi. Í því gæti falist að veita styrki til verkefna á sviði geðræktar á svæðinu.

Margir með lausa skrúfu

Sigurður Gísli Gunnlaugsson, einn þátttakenda Grófarinnar og hugmyndasmiður að Lausu skrúfunni segist hafa verið í veikindaleyfi fyrir nokkru síðan en viljað komast aftur út á vinnumarkaðinn og þótti mikilvægt að vera opinn um veikindi sín. „Ég var einn daginn að ræða þau við samstarfsfélaga minn sem  spurði þá hvort ég væri með lausa skrúfu og í djóki svaraði ég að þær væru ansi margar. Nokkru síðar var ég staddur á fundi í Grófinni þar sem verið var að ræða leiðir til að styrkja starfsemina fjárhagslega. Þar kemur þessi hugmynd fyrst, Lausa skrúfan. Það var tekið vel í hana og fljótlega nældi ég mér í lénið www.lausaskrufan.is og haustið 2023 fengum við styrk til að hrinda verkefninu af stað.“ 

Lausa skrúfan frumsýnd á alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum 10.október n.k.

Verkefnið verður kynnt á Glerártorgi á Akureyri á alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn,10. október, þar sem þátttakendur Grófarinnar verða með bás á milli klukkan 12 og 18. Hægt verður þá að kynna sér verkefnið betur og fagna geðheilbrigðisdeginum með okkur. Einnig verður verkefnið kynnt í fjölmiðlum og með stuttmynd sem gerð var um Grófina og verkefnið. 

Hægt er að lesa meira um Lausu Skrúfuna á síðunni okkar, www.lausaskrufan.is.

Ætlunin er að febrúar verði mánuður Lausu Skrúfunnar. Sá mánuður er mörgum mjög erfiður og tákn myrkurs og kulda sem koma á undan vorinu. Þetta er tími sem við þurfum sérstaklega að huga að geðheilsunni og er því tilvalið að nýta hann til að vekja athygli á málefninu.

Hvað er Grófin Geðrækt ? 

Grófin geðrækt er gjaldfrjálst úrræði fyrir einstaklinga 18 ára og eldri á öllum stigum bata ferilsins sem vilja bæta heilsuna með geðrækt og batavinnu gegnum hópastarf á jafningjagrundvelli. Markmið Grófarinnar er meðal annars að skapa tækifæri fyrir þau sem glíma við andlega erfiðleika til að vinna í sínum bata á eigin forsendum og á eigin ábyrgð, sem og að skapa vettvang fyrir öll þau sem vilja vinna að geðrækt á jafningjagrunni, hvort sem þeir eru notendur geðheilbrigðisþjónustunnar, fagaðilar, aðstandendur eða einfaldlega áhugafólk um framfarir í geðheilbrigðismálum. 

Allar upplýsingar um Grófina á www.grofinak.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó