Vísindaskólinn aldrei vinsælli


Vísindaskóli unga fólksins hefst mánudaginn 18. júní og er þetta í fjórða skiptið sem skólinn starfar innan veggja Háskólans á Akureyri. Alls um 90 börn eru skráð í skólann og hópur barna er á biðlista eftir þátttöku. Þátttakendur eru á aldrinum 11-13 ára og koma alls staðar að af landinu.

„Eftirspurn eftir skólaplássi hefur aldrei verið meiri en í ár, en við höfum haldið okkur við 90 börn sem hámarksfjölda, til þess að geta haldið vel utan um verkefnið. Við erum með 5 ný þemu, eins og á undanförnum árum“, segir Sigrún Stefánsdóttir, skólastjóri Vísindaskóla unga fólksins.

Meðal þess sem unga vísindafólkið mun fást við í næstu viku eru verkefni í FAB LAB smiðju, skapandi hugsun, lífríkið í kringum okkur, starf lögreglunnar og ýmsar vísindalegar tilraunir í eldhúsi og úti á götu. Vísindaskólanum lýkur með formlegri útskrift þar sem fjölskyldur og vinir nemenda eru boðnir velkomnir.

Háskólinn á Akureyri lítur á þetta starf sem mikilvæga samfélagsþjónustu og lið í því að kynna ungu fólki það háskólanám sem er í boði innan veggja skólans. Vísindaskólinn hefur á undanförnum árum fengið mikilvægan stuðning frá fjölda aðila í bæjarfélaginu, sem gerir það mögulegt að starfrækja þessa vísindaviku.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó