,,Vinur er fær um að nauðga, bróðir ykkar er fær um að berja konuna sína og yfirmaður þinn er fær um að áreita þig“

Sunna Kristinsdóttir er 24 ára baráttukona.
Ljósmyndari: Rut Sigurðardóttir.

Sunna Kristinsdóttir skrifaði á dögunum pistil á facebook síðu sína þar sem hún lýsir yfir auðmjúkum stuðningi til fórnarlamba heimilisofbeldis. Pistilinn skrifaði hún í kjölfar umræðu síðustu viku, sem hefur logað á samfélagsmiðlum í kringum viðtalið við Thelmu Björk Steimann, barnsmóður Hafþórs Júlíusar og frásagnir frá öðrum fyrrverandi kærustum hans, þar sem hann er ásakaður um gróft heimilisofbeldi.
Pistillinn hennar Sunnu hefur fengið svakaleg viðbrögð og margir segja sig djúpt snortna af orðum hennar. Í pistlinum ávarpar hún fórnarlömbin beint og segist aldrei hætta að berjast fyrir þeirra hönd, sama hvaða mótlæti hún fær í baráttunni.

Pistlinn má lesa í heild sinni hér að neðan:
Jæja… nú get ég ekki setið á mér lengur.
Undanfarna daga hefur þetta umræðuefni hvílt á herðum mér sem gamall draugur. Stundum er of erfitt að berjast fyrir þessu öllu. Þessvegna elska ég alla þá einstaklinga sem hafa nú þegar tekið slaginn og talað fyrir hönd réttlætis og mannréttinda.
Ég hef ekki getað tjáð mig of mikið því ég var svo sár… ég var svo reið og sár hvernig fólk í hugsunarleysi fer alltaf í gamla farið, afneitun, afsakanir og andúð.
Eins og mörg ykkar hafið líklega áttað ykkur á er ég að tala um umræðu um heimilisofbeldi af hálfu Hafþórs Júlíusar.
Fólk er að stíga fram til þess að votta það hvað hann sé góður maður.
ÞAÐ er að fara svo mikið í mig því það er einmitt það sem er að stinga og særa þolendur ofbeldis oft miklu meira en ofbeldið sjálft. Í alvörunni.

Ef þú ert að lesa þetta og þú ert að hugsa hvað ég sé að væla mikið, taka þessu óþarflega persónulega og sé bara reiður femínisti, nenniru þá að lesa meira, því ég vil meira að þú lesir heldur en einhver sem er sammála mér. Því það eru miklar líkur að þú sért vinur minn, flottur einstaklingur, eða hver sem er, sem að skilur bara ekki nógu vel þennan heim. Kynbundið ofbeldi, heimilsofbeldi eða kynferðisofbeldi.
Það sem er vandamálið er að við ættum ekki að „normalísera“ ofbeldi, en það þarf að „normalísera“ ofbeldismenn hinsvegar. Því ALLIR eru færir um að beita ofbeldi og allir gera það einhverntímann, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt. ALLIR. Ég hef verið vond við einhvern og einhverjir vondir við mig. En ofbeldið heldur bara áfram og stigmagnast ef fólk sér ekki villu síns vegar.
Með því að styðja eða hunsa ofbeldi þá mun fólk ekki getað verið besta útgáfan af sjálfum sér.
Ég hef orðið fyrir miklu ofbeldi yfir ævina. Það er bara staðreynd og við þurfum ekki að kryfja það í þessum pistli þvi hann snýst ekki um mig, en ég minnist bara á það því ég veit hvernig það er að vera í ó svo mörgum sporum. Ég veit hvernig það er þegar þetta er einhver ókunnugur, einhver vinur eða maki.
Því nánari manneskjunni sem ég var, því átakanlegra var það og erfiðara að segja frá.

Þú getur auðveldlega elskað manneskju sem er samt ofboðslega vond við þig. Því enginn er alltaf vondur. Og það er svo erfitt að segja vinum og fjölskyldu, því maður vill ekki að þau hati manneskjuna sem þú elskar. Þau sjá hann ekki í sama ljósi… svo þú þegir… þú þegir svo lengi að þú skammast þín ótrúlega mikið. Afhverju ertu svona vitlaus að fara ekki? Þetta er ekki flókið, allavega ekki samkvæmt þeim sem hafa ALDREI verið í þessum sporum…. þau eru alltof mörg dugleg að tjá sig um það hvað einstaklingar eins og þú séu bara búnir að koma sér í þessa stöðu sjálfir.
Við hverju búist þið þegar þetta er það sem bíður þeirra þegar þau segja frá? Ég get skilið að þið viljið ekki taka afstöðu, það geta alltaf verið ástæður á bakvið þær ákvarðanir.
En þegar þið vitið ekki aðstæður, þá er eðlilegra að ætla að ásakanir séu réttar, en ekki afsakanir.

Þó að einhver sé ekki og hafi aldrei verið vondur við ykkur, þá hefur það ekkert með það að gera hvort hann hafi verið vondur við aðra. Og eins og einhver orðaði, ef að þú þekkir morðingja er hann ekki morðingi því hann drap þig ekki?
Vinur er fær um að nauðga, bróðir ykkar er fær um að berja konuna sína og yfirmaður þinn er fær um að áreita þig. Flestir gera það aldrei því þeir eru ekki nálægt því að hafa slíka hegðun í sínu fari, en allskonar einstaklingar eru það. Skiptir engu máli hvers lenskur hann er, hvað hann er gamall, hvaða kynhneigð hann hefur, við hvað hann vinnur, eða hversu mikið hann er góður við þig eða aðra.

Viðurkennum ofbeldi og bætum okkur. Temjum okkur æðruleysi og breytum rétt.
Styðjum við þolendur ofbeldis. Þau eiga ekki vafann skilið. Upplifun skiptir miklu máli. Þolandi getur upplifað ofbeldi þegar gerandi er sýktur afneitun. Hjálpar ekki þegar vinur segir „þú myndir aldrei“ … spyrjið frekar erfiðu spurninganna, veriði til staðar fyrir ofbeldismenn á öðruvísi hátt, styðjið þá í framförum, eftirsjá og játningu.
Elsku hetjur sem lesið og finnið til, þið eruð svo mikils virði og hafið minn stuðning, mín tár, og minn styrkleika. Ég mun aldrei hætta að tala ykkar máli sama hvað hver uppnefnir mig eða hunsar.

Sambíó

UMMÆLI