Vintage Caravan heiðrar Led Zeppelin með tónleikum í Hofi

Vintage Caravan heiðrar Led Zeppelin með tónleikum í Hofi

The Vintage Caravan, ein kraftmesta tónleikasveit Íslands, mun flytja mörg af bestu lögum Led Zeppelin, ásamt Matta Matt, Eyþóri Inga, Stefaníu Svavars og Degi Sigurðssyni, í Hofi næstkomandi laugardag, 1.mars.

Þeir Óskar Logi Ágústsson, Alexander Örn Númason og Stefán Ari Stefánsson skipa hljómsveitina Vintage Caravan en Óskar stofnaði hljómsveitina árið 2006 aðeins 11 ára gamall.

Óskar Logi segir í samtali við Kaffið.is að hljómsveitin sé gríðarlega spennt að koma norður. „Við höfum komið nokkrum sinnum á hverju ári síðan 2011 á Græna Hattinn og eigum í frábæru sambandi við hópinn okkar á Akureyri, enda er Græni Hatturinn og fólkið á Akureyri í miklu uppáhaldi hjá okkur.“

Hann segir að Akureyringar megi búast við einstakri rokkupplifun og nokkuð óhefðbundnum heiðurstónleikum.

„Við fundum góðan balans þar sem gallharðir aðdáendur eru ánægðir með lagavalið og tilvitninar og þeir sem þekkja bara stærstu lögin eru líka kátir.Svo verður þetta mikil nostalgía fyrir þá sem fóru á Zeppelin í höllinni 1970 og frábært tækifæri fyrir þá sem vilja kynna sér Led Zeppelin,“ segir Óskar.

Aðspurður hvers vegna þeir vilji heiðra Led Zeppelin segir Óskar að hljómsveitin sé hans fyrsta ást í lífinu.

„Það er frábært að kafa í þetta efni og enduruppgötva hvað fékk mann til að elska þá til að byrja með og skilja það enn betur. Svo verða þetta ekki hefðbundnir Zeppelin tónleikar. Við erum að byggja svoldið á tónleikaupptökum frá þeim og með allskyns tilvitnanir í ýmsa hljómleika.“

Ferðin til Akureyrar verður einnig sérstök fyrir Óskar persónulega þar sem að hann tekur þriggja mánaða gamlan son sinn með sér til Akureyrar.

„Hann er einmitt hálfur Akureyringur, og ég tengdasonur Akureyrar, þannig að ég fæ að kynna hann fyrir hinum heimabænum. Ég sleppi því að gefa honum gelgjufæði í þetta sinn en ég mun fá mér svoleiðis daginn eftir gigg,“ segir Óskar.

Óskar og félagar í The Vintage Caravan halda tvo tónleika í Hofi á laugardaginn, fyrst klukkan 17 og svo klukkan 21 og enn eru nokkrir miðar eftir til sölu sem hægt er að kaupa á tix.is.

Sambíó
Sambíó