NTC

Vinsælustu fjallgönguleiðirnar í nágrenni AkureyrarÚtsýnið frá skólavörðu. Mynd: Vilhjálmur Bergmann Bragason.

Vinsælustu fjallgönguleiðirnar í nágrenni Akureyrar

Akureyri og nágrenni bjóða upp á endalausa útivistarmöguleika. Það er örstutt að skreppa í Kjarnaskóg, upp á Glerárdal, auk þess sem fjölda gönguleiða má finna innanbæjar. En fyrir þá sem þrá örlítið meiri áskorun er líka ekkert mál að skella sér í alvöru fjallgöngur. Hér fyrir neðan má finna lista yfir fjöll í nágrenni Akureyrar sem tilvalið er að leggja til atlögu við í góða veðrinu. Leiðirnar birtast hér í erfiðleikaröð:

1. Skólavarða – Vaðlaheiði

Akureyringar hafa Vaðlaheiðina fyrir augum sér alla daga og því ágætist tilbreyting að fara yfir um og njóta útsýnisins í hina áttina. Merkingar frá Varðgjár-afleggjaranum vísa á stæði sem er upphafspunktur göngunnar, en þaðan er leiðin stikuð alla leið upp að vörðu. Leiðin er dálítið brött á köflum, en gangan er létt og getur tekið frá 40 mínútum upp í 3 klst fram og til baka, eftir því hversu hratt menn vilja og treysta sér til að fara. Þetta er ganga við flestra hæfi og hentar vel fyrir alla fjölskylduna.

2. Hlíðarfjall –Harðarvarða

Gengið frá Skíðastöðum meðfram skíðalyftum og frá Strýtu má fylgja troðningi um Mannshrygg alla leið upp á fjallsbrúnina. Leiðin er dálítið brött, en mjög þægileg og á flestra færi. Heildavegalengd er um 10 km og gönguhækkun um 400 metrar. Tilvalið ævintýri fyrir alla fjölskylduna. Í sumar má nýta sér að skíðalyfturnar eru opnar ákveðna daga í viku og þar með flýta fyrir sér á leiðinni upp, niður eða bæði. 

3. Staðarbyggðafjall – Uppsalahnjúkur

Staðarbyggðafjall blasir við bænum til suðausturs, en austan við fjallið liggur hinn gróðursæli Garðsárdalur. Best er að aka að Öngulsstöðum og leggja við sumarhúsið Sel. Gangan er um 9 km í heildina og gönguhækkun um 930 metrar. Leiðin er stikuð alla leið. Á miðri leið er komið upp á Haus, sem er fremst á fjallinu, en það er líka gaman að ganga þangað ef menn vilja fara styttri leið.

4. Súlur

Súlur eru óumdeilt bæjarfall Akureyrar og margir vilja meina að þú teljist varla Akureyringur fyrr en þú hefur gengið þar upp. Gangan er töluvert erfiðari en hinar á undan, ekki síst vegna þess að fjallið er í brattaralagi efst. Vegalengd er um 5-6 km hvora leið og gönguhækkun rétt tæpir 900 metrar frá bílastæðinu á Glerárdal, en þaðan er leiðin stikuð alla leið.

5. Kerling

Kerling er hæsta fjall við byggð á Íslandi, heilir 1538 metrar. Algengast er að ganga frá Finnastöðum í Eyjafjarðasveit. Leiðin er ekki stikuð og mjög brött á köflum, fólk þarf að vera í góðu formi til þess að leggja til atlögu við Kerlinguna. Glerárdalsmegin er Kerling svo til einn samfelldur hamraveggur, allt að 200 metrar á hæð, og því ber að umgangast hana af varúð og virðingu ef veður breytist, þoka skellur á. En í góðu veðri sést yfir allt hálendið og allt suður að Vatnajökli af tindi Kerlingar.

Sambíó

UMMÆLI