Vindar í Hlíðarfjalli valdið skemmdum á nýrri stólalyftu

Vindar í Hlíðarfjalli valdið skemmdum á nýrri stólalyftu

Nýja stólalyftan í Hlíðarfjalli verður ekki tekin í notkun fyrir áætlaða opnun skíðasvæðisins 17. desember. Lyftan, sem átti upprunalega að vera tekin í notkun í desember árið 2018, hefur nú orðið fyrir skemmdum vegna sterkra vinda í Hlíðarfjalli. Þetta kemur fram í umfjöllun RÚV.

Unnið er að því að fyrirbyggja frekari skemmdir og stefnt er á að taka lyftuna fljótlega í notkun. Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls, segir að nú sé verið að setja styrkingar neðan í stólana og bindingar á milli þeirra til þess að minnka skaðann sem veðrið veldur. Hann segir að það sé vandkvæðum búið að setja upp stólalyftu í yfir 1.000 metra hæð við íslenskar aðstæður.

Halla Björk Reynisdóttir, formaður stjórnar Hlíðarfjalls, segir að tafirnar hafi ekki haft mikil fjárhagsleg áhrif á Akureyrarbæ. 

„Við keyptum lyftuna á ákveðnu verði þannig að það sem hefur komið upp hefur verið á höndum Vina Hlíðarfjalls. Þannig að aukinn kostnaður við uppsetningu hefur ekki komið niður á Akureyrarbæ. Það má kannski finna út að starfsmenn hafi veitt meiri þjónustu en megnið af kostnaðinum lendir á Vinum Hlíðarfjalls. Um það var samið,“ segir Halla Björk í samtali við fréttastofu RÚV.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó