NTC

Vill sýna gott fordæmi fyrir aðra með því að kaupa föt á umhverfisvænni hátt

Vill sýna gott fordæmi fyrir aðra með því að kaupa föt á umhverfisvænni hátt

Júlía Grönvaldt Björnsdóttir er af mörgum talin tískudrottning Norðurlands. Hún stundaði nám í Istituto Europa di design háskólanum í Flórens en þar lærði hún “Fashion Communication and styling”. Júlía spjallaði við fréttaritara Kaffið.is og svaraði nokkrum spurningum. Hún sagði okkur meðal annars frá því hvað er heitt í tískuheiminum fyrir komandi vetur.

Hvenær kviknaði áhugi þinn og ástríða fyrir tísku? 

„Ég hef alltaf verið mjög heltekin af pop kúltúr, þá sérstaklega tónlist, kvikmyndum og sjónvarpsefni alveg frá því að ég man eftir mér og eyddi alltof miklum tíma fyrir framan tölvuna að uppgötva tónlist og skoða myndir af tónlistarfólki. Stórir karakterar og persónuleikar hafa alltaf heillað mig mikið og ég held að áhuginn á tísku hafi kviknað þegar ég áttaði mig á því hvað stíll og tíska gerir mikið til að skapa sterka karaktera. Það sem gerði mig svo virkilega heltekna af tísku var þegar ég byrjaði á tumblr í menntaskóla því það opnaði nýjan heim fyrir mér með ljósmyndum af hátísku, streetwear, tískuljósmyndun, hip hop og allskonar list. Ég var fljót að átta mig á því hvað tískuheimurinn væri áhugavert fyrirbæri, hversu mikil áhrif hann hefur á menningu og ég hef haft brennandi áhuga á honum síðan.”

Hverjar voru þínar fyrstu fyrirmyndir í tískunni? 

„Fyrstu tískufyrirmyndirnar voru klárlega tónlistafólkið sem ég fylgdist hvað mest með. Á þeim tíma sem ég byrjaði að þróa minn eigin persónulega stíl  hlustaði ég mikið á hip hop og rapp og það hafði rosaleg áhrif á það hvernig stíllinn minn mótaðist. Það var á því tímabili sem hátíska og rapp var í fyrsta skipti að tengjast saman og tónlistarmenn á borð við Asap Rocky, Rihanna og Kanye West urðu ákveðnir brautryðjendur í því að blanda þessum tveim heimum saman. Þau höfðu alveg rosaleg áhrif á mig og lagið Fashion Killa með Asap á sérstakan stað í hjarta mínu.

Lagið Fashion Killa með Asap Rocky er í miklu uppáhaldi hjá Júlíu.

Þær tísku fyrirmyndir sem ég hef fylgst hvað mest með í gegnum árin eru drottningarnar Zoe Kravitz og Rihanna. Þær eru óumdeilanlega nettustu gellur sem ég veit um og með flottasta stílinn.“ 

Júlía segist elska að vakna snemma á morgnana, chilla, fá sér rjúkandi kaffibolla og hlusta ljúfa tóna til að koma sér í gír fyrir daginn. En er auðvelt fyrir hana að finna þér outfit dagsins?

„Að velja outfit er mislétt því það fer algjörlega eftir skapi, veðri og verkefni dagsins. Mér finnst gaman að prófa mig áfram með ný outfit og er óhrædd við að klæðast litríkum og “öðruvísi” flíkum. Þannig að svo lengi sem að mér líður eins og ég sé geðveikt nett þá er ég good to go.”

Júlía er fær á fleiri sviðum þegar að kemur að tísku og sköpun en hún hefur sinnt ýmsum verkefnum á fjölbreyttum stöðum, þar á meðal bakvið myndavélina, stílisti og sem listrænn stjórnandi. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að fara í fashion communication and styling? 

„Mig langaði alltaf til að fara í tískunám en áhugi minn lá ekki beint í fatahönnun. Ég leitaði að skólum sem buðu uppá nám í tísku og fann þá háskólann Istituto Europa di design sem er staðsettur víðsvegar um heiminn. Námið sem heillaði mig mest var Fashion Communication and styling í Flórens á Ítalíu. Fashion communication er mjög vítt svið og buðu kúrsarnir uppá kennslu í tísku ljósmyndun, grafískri hönnun, listrænni stjórnun og framleiðslu og margt fleira. Ég vissi að það myndi vera góður grunnur fyrir mig til að finna svo hvar mín ástríða liggur sem reyndist svo vera listræn stjórnun“

Hvernig nýtiru kunnáttu úr náminu í því sem þú ert að gera í dag?

„Námið mitt var mjög krefjandi sérstaklega vegna þess að ég lærði svo mikið af mismunandi hlutum sem snerta á öllum hliðum tískubransans. Það nýtist mér vel í dag þar sem hæfileikar mínir liggja þá á ýmsum sviðum, þar á meðal ljósmyndun, stafrænni miðlun, mynd- og myndbandsvinnslu eða stíliseringu. Það dýrmætasta sem ég lærði í náminu mínu var að þjálfa mitt listræna auga og læra að vera opin og forvitin fyrir nýjum hugmyndum, og hvernig er best að miðla þeim hugmyndum. Tíska er samfélagsleg hreyfing og er síbreytileg með nýjar stefnur og strauma, þykir mér þá mikilvægt að þróa sína persónulegu sýn á þeirri hreyfingu. Ég held bara áfram að læra og þróa nýja hæfileika sem munu þá nýtast mér í framtíðinni.”

Hvert viltu sjá tískubransann og neytenda markaðinn stefna varðandi sjálfbærni og hvaða áhrif vilt þú hafa?

„Það er mjög mikilvægt fyrir tískubransann og tískufyrirtæki að aðlagast að hringrásar hagkerfi sem þýðir það að allt sem er framleitt og selt er úthugsað þannig að engu sé einfaldlega hent heldur endurnýtt. Það sem neytandinn þarf þá líka að gera er að taka meðvitaða og upplýsta ákvörðun þegar hann kaupir flíkur og velja þær vel. Það sem við kaupum þurfum við að taka ábyrgð á og finna lausn til að lagfæra eða nýta betur flíkurnar. 

Ég persónulega kýs að kaupa bara notuð föt því það er mun skemmtilegri og persónulegri leið til að versla flíkur. Að versla second-hand/vintage flíkur gefur manni svo mikið frelsi til að þróa sinn eigin persónulega stíl og á sama tíma er maður að velja mun umhverfisvænni leið til að versla föt. Með því að sýna gott fordæmi vona ég að ég hafi áhrif á aðra í kringum mig og fái sem flesta til að byrja að thrifta!! Drip too hard í nytjamarkaðinum.”

Tækifærin í tískubransanum á Íslandi eru af skornum skammti segir Júlía en hún sér fyrir sér að flytja aftur til Ítalíu og eiga góðan feril þar á næstu árum, en hver er munurinn á tískustraumnum á Ítalíu og Íslandi?

„Það er alveg gífurlega mikill munur á tískustraumunum á Íslandi og Ítalíu en það er bara vegna þess að list og tíska er rosalega rótgróin á Ítalíu. Menningar- og tísku sagan byrjaði þar og maður finnur hvað það hefur mikil áhrif á Ítalann. Á meðan er Ísland algjör andstæða við það að mínu mati og hefur ekki þennan sterka stíl yfir sér, enda erum við með mun yngri menningu ef það er hægt að orða það svoleiðis. Ítalinn er mjög stoltur af klassísku og endingargóðu hönnun sinni sem er annaðhvort handgerð eða gerð í flottri framleiðslu. Svo eiga Ítalarnir flest öll flottustu tískuhúsin sem hafa bókstaflega skrifað tískusöguna frá grunni. Við Íslendingar fáum meiri áhrif frá Bandarískri menningu, en sú menning er meira þekkt fyrir að kaupa mikið og ekkert svo endingargóðar vörur. Þannig að við ættum klárlega að taka Ítalann til fyrirmyndar og velja gæði fram yfir magn.”

Hvert sækiru innblástur og hvernig geriru hann að þínum stíl?

„Eitt sem situr mjög í mér sem ég lærði í náminu mínu var þegar að kennarinn minn nefndi við mig að leita alltaf að innblástri í öllu nema tísku. Það er eins og það hafi kviknað einhver ljósapera í heilanum  mínum á því mómenti því eftir það fylgist ég rosa lítið með tísku þannig séð. Því sæki ég innblástur á mun áhugaverðari stöðum. Eins og ég nefndi laðast ég mest að áhugaverðum persónuleikum eða karakterum. Ég fíla að fylgjast með fólki sem fer algjörlega sínar eigin leiðir eins og t.d. sumir listamenn því þau eru með ákveðna orku og viðhorf sem er svo smitandi og fær mig til að langa að vera ýktasta útgáfa af sjálfri mér. Svo finn ég bara réttu flíkurnar til að tjá það og geri það að mínum eigin stíl.”

Litríkar flíkur eru uppáhaldið hennar Júlíu og finnst henni gaman að leikja sér með allskonar litasamsetningar en ekki er mikið af svörtum flíkum í fataskápnum hjá henni, afhverju er það?

„Ég forðast það að ganga í svörtu því mér finnst það svo boring og segja svo lítið. Ég er orðin svo meðvituð um hvað ég er að segja með outfittunum mínum og það síðasta sem ég myndi vilja tjá er að ég sé boring og klassísk, en það er bara ég og minn stíll.”

Hverjar eru þínar uppáhalds second-hand búðir?

„Mér finnst náttúrulega best að versla á hinum ýmsu stöðum í Evrópu þar sem hægt er að finna skemmtilega markaði og second-hand/vintage búðir út um allt. 

Á Íslandi finnst mér skemmtilegast að fara á nytjamarkaði og finna gersemar sem maður myndi vanalega ekki finna í hefðbundnum verslunum. Ég er mjög hrifn af Fatamarkaðnum við Hlemm, Spúútnik og Rauða Kross búðunum, svo finn ég ótrúlegustu hluti í Extraloppunni, Hringekjunni og fleiri loppubúðum. Í þeim búðum finn ég allskonar merkjavörur eða áhugaverðar flíkur sem fólk er að selja af sér og greinilega átta þau sig ekki á því hvað þessar flíkur eru verðmætar, allavega fyrir mér. One man’s trash is another man’s treasure segi ég bara.”

One man’s trash is another man’s treasure.

„Goon tískan” sem ríkjandi er hjá unglingum á Íslandi sækir mikinn innblástur frá hip/hop-i,  hvernig finnst þér sú tískubylgja?

„Ungir strákar á þessum aldri vilja eðlislega gera smá uppreisn og eru goons ákveðnir pönkarar nú til dags hvort sem þeir átti sig á því eða ekki. Þetta snýst allt um lífsstílinn sem þeir vilja mögulega vera partur af og auðveldasta leiðin til að láta líta út fyrir að þú sért með ákveðinn lífsstíl er að klæðast þannig. 

Mér finnst stíllinn sjálfur mjög skemmtilegur þó mér líður eins og hér á Íslandi séu allir bara að herma eftir næsta manni. Það er engin sál í því sem er mjög leiðinlegt. Ég hvet þessi ungu goons til að taka lúkkið sitt á næsta level og þróa stílinn sinn enn frekar.”

„Ég er sjálf mjög hrifin af rapp menningunni og stílnum sem henni fylgir. Rapparar nánast keppast um að vera sem mest over the top þegar það kemur að fatavali og eru ekki endilega að fylgja trendum. Þó það sé orðið mjög klisjukennt að rapparar klæðist Rick Owens þá fíla ég það samt mjög mikið.

Ég er yfir mig ástfangin af Skepta og hef alltaf haft mjög gaman að fylgjast með honum. Stíllinn hans er fáránlega nettur og hann er certified tísku íkon í dag. Lancey Foux er mjög áhguverður karakter og ég fíla mjög mikið stílinn og myndræna heiminn hans. Svo er Deto Black nett gella sem ég er búin að fylgjast mikið með og fæ mikinn innblástur frá. 

Breski rapparinn Skepta.

Aðrir rapparar sem mér finnst gaman að fylgjast með eru til dæmis Pharrell, Shygirl, Asap Rocky, Rico Nasty, Young Thug og Asap Nast.”

En að lokum, hvað er heitt fyrir veturinn? Hverjar eru víbrurnar?

„Sterkir litir, stórar puffer úlpur, prjónafatnaður og skíðafatnaður. Mér líður eins og fólk muni græja sig vel fyrir veturinn, ég sé fyrir mér risa moonboots, prjónaðar buxur og kóngablá puffer úlpa (a Kanye puffer jacket moment). Væri gaman að sjá fleira fólk skipta svörtu útifötunum út fyrir sterka statement liti.”

Kanye West í kóngablárri „YEEZY GAP“ úlpu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó