Vilja stytta hringveginn – Varmahlíð og Blönduós yrðu ekki lengur hluti af leiðinni milli Akureyrar og ReykjavíkurBlönduós og Varmahlíð yrðu ekki lengur hluti af leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Vilja stytta hringveginn – Varmahlíð og Blönduós yrðu ekki lengur hluti af leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur

Umdeild hugmynd um styttingu hringvegarins, sem fyrst var borin upp fyrir um 10 árum síðan, er aftur komin upp. Hafin er undirskriftasöfnun til stuðnings því að styttingin verði tekin upp í samgönguáætlun á ný en styttingin er tvíþætt, annars vegar í Skagafirði og hinsvegar í A-Húnavatnssýslu. Með því að ráðast í þessar framkvæmdir yrði styttingin milli Norðaustur- og vesturhluta landsins um 20 kílómetrar.

Núverandi leið í samanburði við Vindheimaleið.

Fyrst er það svokölluð Vindheimaleið í Skagafirði þar sem sveigt yrði af þjóðvegi eitt í Blönduhlíð, ekið sunnan við Varmahlíð og upp á Vatnsskarð við Arnstapa. Með því að fara þennan veg og sveigja framhjá Varmahlíð styttist leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur um 6 kílómetra.

Síðan er það svokölluð Húnavallaleið í A-Húnavatnssýslu. Í stað þess að keyra í gegnum Blönduós yrði þjóðvegur eitt færður sunnar. Sveigt yrði í vestur úr Langadal, ekið á milli Laxárvatns og Svínavatns, framhjá Húnavöllum og komið á Hringveginn við bæinn Öxl í mynni Vatnsdals. Nú þegar keyra sumir þessa leið en vegurinn er ómalbikaður að mestu leyti. Þessi vegur styttir leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um 14 kílómetra.

Núverandi leið í samanburði við Húnavallaleið.

Þessar styttingar þjóðvegarins voru lagðar fram fyrir um áratug síðan en voru mjög umdeildar, þá sérstaklega hjá sveitastjórnum í Húnavatnssýslum og Skagafirði, enda yrði Varmahlíð og Blönduós ekki lengur hluti af Þjóðvegi eitt með þessu móti. Sveitarstjórnir þar mótmæltu harðlega meðan sveitarstjórnir á svæði Eyþings studdu hugmyndirnar.

Nú hefur Samgöngufélagið sent Alþingi athugasemdir við tillögu að Samgönguáætlun 2019-2033 þar sem það óskar eftir því að Húnavallaleið og Vindheimaleið verði bætt í skipulagið. Enn fremur stingur það upp á því að fjármagna megi gerð veganna með veggjöldum og þannig taki framkvæmdirnar ekki til sín fé frá öðrum mikilvægum vegaframkvæmdum.

„Einkennilegt er að það er eins og reistur hafi verið þagnarmúr um þessar hugmyndir og sérstakt að þetta skuli hvergi nefnt í samgönguáætlun né ræðum þingmanna í tengslum við hana, að því er best verður séð. 
Samgöngufélagið hefur sett inn á vef Alþingis athugasemdir við samgönguáætlun þar sem vakin er athygli á þessum möguleikum,” segir í tilkynningu frá Samgöngufélaginu á Facebook síðu þeirra.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó