Vilja ljúka rannsóknum vegna jarðgangna á milli Fljóta og SiglufjarðarMynd/ Ásta Sigfúsdóttir

Vilja ljúka rannsóknum vegna jarðgangna á milli Fljóta og Siglufjarðar

Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að fela Vegagerðinni að ljúka nauðsynlegum rannsóknum vegna gerðar vegganga fyrir þjóðveg milli Siglufjarðar og Fljóta, hanna slíkt mannvirki og leggja mat á kostnað við gerð þess. Ráðherra leggi skýrslu með niðurstöðum rannsókna og kostnaðarmati fyrir Alþingi fyrir árslok 2023.

Í greinargerð þingsályktunarinnar kemur fram að með stóraukinni umferð um Siglufjörð sem fylgdi tilkomu Héðinsfjarðarganga, sífelldu jarðsigi á Siglufjarðarvegi um Almenninga, mjög tíðum aur- og snjóflóðum á ströndinni út frá Siglufirði að Strákagöngum svo og miklum og auknum lokunum á Siglufjarðarvegi frá Ketilási til Siglufjarðar er fullljóst að framtíðarvegtenging frá Siglufirði í vesturátt verður best tryggð með gerð jarðganga milli Siglufjarðar og Fljóta.  

Sjá einnig: Hrikalegar myndir af Siglufjarðarvegi

Flutningsmenn tillögunnar eru þau Logi Einarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Jakob Frímann Magnússon, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Stefán Vagn Stefánsson, Bjarni Jónsson, Eyjólfur Ármannsson, Bergþór Ólason, Haraldur Benediktsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Jódís Skúladóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.

Sjá einnig: Siglufjarðarvegi var lokað 22 sinnum frá 10. desember

Flutningsmenn vilja með tillögunni koma því til leiðar að forsendur fyrir veggöngum milli Siglufjarðar og Fljóta verði rannsakaðar frekar með það að markmiði að færa þessa nauðsynlegu samgöngubót nær framkvæmdastigi. Þar sem forathugun hefur þegar farið fram er talið raunhæft, og lagt til, að innviðaráðherra leggi skýrslu um málið fyrir Alþingi fyrir árslok 2023. Hér er um nauðsynlegt fyrsta skref að ræða en ekki endanlega lausn sem ekki fæst fyrr en komin eru ný göng úr Ólafsfirði til austurs eins og Vegagerðin er þegar byrjuð að skoða.

Sjá einnig: Vilja samgöngubætur í Fjallabyggð

Í ályktun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá  9. nóvember 2022 um samgöngumál í Fjallabyggð kemur fram að bæjarstjórn Fjallabyggðar beini því til ráðherra samgöngumála og Vegagerðarinnar að tryggja nauðsynlegt fjármagn í endanlega hönnun þessara ganga þannig að hægt verði að bjóða þau út eins fljótt og hægt er. „Ástand vegarins á milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði er óviðunandi fyrir íbúa svæðisins, aðra vegfarendur og atvinnulífið á svæðinu,“ segir í ályktuninni.

Þingsályktunartillöguna er hægt að lesa í heild sinni á vef Alþingis

Frétt: Trölli.is

Sambíó
Sambíó