Vilhelm Þorsteinsson EA 11, nýtt skip Samherja, sigldi inn fyrir 200 mílna lögsögu Íslands í gærmorgun. Skipið er sagt vera fullkomið og sparneytið uppsjávarskip en það kostar 5,7 milljarða króna tilbúið á veiðar.
Skipið mun koma til heimahafnar á Akureyri kl.10.00 í fyrramálið, á laugardagsmorgun, og leggjast að við Togarabryggjuna.
„Vegna sóttvarnaráðstafana verður því miður ekki hægt að hafa skipið til sýnis að svo stöddu en fyrir áhugasama minnum við á klukkutíma þátt á sjónvarpsstöðinni N4 sem sýndur verður á mánudaginn annan í páskum kl. 20.00,“ segir í tilkynningu á vef Samherja.