NTC

Vikan í Hrísey – Unglingar í útrás og sjómannadagur í uppsiglinguHríseyskir unglingar eru að taka yfir Kaupmannahöfn þessa dagana!

Vikan í Hrísey – Unglingar í útrás og sjómannadagur í uppsiglingu

Vikan í Hrísey er vikulegur pistill hér á Kaffinu þar sem Ásrún Ýr Gestsdóttir færir lesendum okkar fregnir af því sem gerst hefur í Hrísey undanfarna vikuna. Pistlarnir eru einnig birtir á heimasíðu Hríseyjar undir nafninu „Föstudagsfréttir.“ Pistillinn hefst við næstu greinaskil og er því allt hér á eftir skrifað af Ásrúnu:

Upp er runninn föstudagur og tekur helgin vel á móti okkur.

Það verða ekki langar föstudagsfréttir í dag þar sem fréttaritari situr í þessum rituðu orðum á bekk í Tívolí í Kaupmannahöfn þar sem 9. og 10.bekkur Hríseyjarskóla er í útskriftaferð! Eru þessar ferðir fyrir löngu orðin hefð, enda hafa elstu bekkirnir farið til Danmerkur u.þ.b. annað hvert ár síðan um aldamótin. 

Það er þó nóg um að vera í Hrísey þó unglingana vanti. Um síðustu helgi var bæði kalt og blautt en þó lét fólk ekkert stoppa sig í sundferðum og göngutúrum. Undirbúningur fyrir sjómannadaginn er í fullum gangi og hefur björgunarsveitin auglýst eftir bökurum á Facebook. Að sjálfsögðu stukku fjöldi sjálfboðaliða af stað að fletta uppskriftarbókum og stefnir í svaka veislu þann 2.júní! Munið að fylgast vel með hérna á viðburðardagatalinu.

Á morgun er hreinsunarsagurinn okkar og mun hverfisráð grilla ofan í duglega hreinsara!

Veðrið á að vera með besta móti og hiti nær 20 gráðum en 10. Meðaltalið á veðursíðunum segir svona um 16 gráðurnar og sólskin!

Lengri verða fréttirnar ekki í þetta sinn, enda kominn tími á að elta unglingana í næsta tæki! Njótið helgarinnar kæru lesendur!

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó