NTC

Vignir býður sig fram til embættis formanns KSÍ

Vignir býður sig fram til embættis formanns KSÍ

Vignir Már Þormóðsson, fyrrum stjórnarmaður í KSÍ, hefur ákveðið að gefa kost á sér í kjöri formanns KSÍ sem fram fer á ársþingi sambandsins, 24. febrúar nk.

Vignir sat í aðalstjórn KSÍ á árunum 2007 til 2019 og var áður formaður knattspyrnudeildar KA í tæp 7 ár. Þá hefur hann síðustu tíu ár verið starfandi eftirlitsmaður knattspyrnuleikja á vegum UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu.

„Ég þekki knattspyrnuhreyfinguna og innviði hennar vel, bæði hér heima og á alþjóðavísu, enda hefur íþróttin átt hug minn og hjarta frá því ég var ungur drengur. KSÍ gegnir afar veigamiklu samfélagslegu hlutverki en starfsemi sambandsins er umfangsmikil og teygir anga sína um allt land. Hlutverk sambandsins er meðal annars að vera andlit knattspyrnuhreyfingarinnar á Íslandi á afrekssviði með landsliðum sínum, sem hafa verið stolt okkar allra og borið hróður landsins um víða veröld. Ekki síður gegnir KSÍ mikilvægu hlutverki í ræktun á veigamiklu uppeldis- og grasrótarstarfi inni í félögunum, sem er bæði ómetanlegt og viðurkennt. Formaður KSÍ á að sameina allt áhugafólk um íþróttina í eina breiðfylkingu – ég tel mig mjög hæfan í það hlutverk. Eftir að hafa velt stöðu mála gaumgæfilega fyrir mér síðustu vikur hef ég ákveðið að bjóða mig fram til formanns KSÍ á ársþingi sambandsins,“ segir Vignir Már Þormóðsson.

Sambíó

UMMÆLI