Fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar boðaði til samverustundar í Naustaskóla í gær, 27. febrúar, þar sem nemendum og starfsfólki leik-, grunn- og tónlistarskóla Akureyrarbæjar voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi skólastarf. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.
„Markmiðið með viðurkenningunum er að vekja sérstaka athygli á því sem vel er gert og hvetja þá sem fyrir valinu verða til þess að halda áfram því góða starfi sem þeir eru að vinna. Viðurkenningin er einnig staðfesting á að viðkomandi nemandi, starfsmaður, skóli er fyrirmynd annarra á því sviði sem viðurkenningin nær til,“ segir í tilkynningu bæjarins.
Heimir Örn Árnason, formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs, afhenti síðan viðurkenningarnar.
Viðurkenningar hlutu Aron Emil Kolbeins, nemandi í Naustaskóla, fyrir mestar framfarir, Birta Nótt Kröyer Sveinbjörnsdóttir, nemandi í Hlíðarskóla, fyrir framúrskarandi árangur í félagsfærni og námi, Emelía Rán Eiðsdóttir, nemandi í Glerárskóla, fyrir framúrskarandi hæfni í skapandi greinum, Guðbjörg Sóley Friðþórsdóttir, nemandi í Glerárskóla, fyrir þroskað hugarfar, rökvísi og gagnrýna hugsun, Rebekka Rós Vilhjálmsdóttir, nemandi í Giljaskóla, fyrir jákvæðni og hrós og Kveldúlfur Snjóki Gunnarsson, nemandi í Oddeyrarskóla, fyrir metnað, ábyrgð, kurteisi.