Viðburðarík helgi í Hofi

Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri sýnir Ávaxtakörfuna

Það er óhætt að segja að það sé mikil gróska í menningarlífi norðan heiða þessa dagana og eru fjölmargir fjölbreyttir viðburðir í Menningarhúsinu Hofi um helgina.

Á föstudag frumsýnir Leikfélag Menntaskólans á Akureyri uppsetningu félagsins á LoveStar, sem er byggð á samnefndri sögu Andra Snæs Magnasonar og leikstýrt af Einari Aðalsteinssyni.

Á laugardag fá helstu smellir George Michael að hljóma í Hamraborg á heiðurstónleikum RIGG viðburða til minningar um þennan ástsæla söngvara, þar sem Friðrik Ómar verður í fararbroddi.

Á sunnudagsmorgun býður Menningarhúsið Hof og Norðurorka börnum á aldrinum 2-8 ára á vit ævintýranna með Ástu Sighvats leikkonu og Maríu Gunnarsdóttur tónlistarkennara . Börnin koma í Hof í uppáhaldsbúningum sínum, ásamt foreldrum eða forráðamönnum, og leysa þrautir undir ævintýralegri tónlist sem skapar réttu stemninguna.

Á sunnudeginum er einnig önnur aukasýning Leikfélags Verkmenntaskólans á Akureyri á Ávaxtakörfunni, sem hefur slegið í gegn hjá öllum aldurshópum. Leikfélög beggja framhaldsskóla Akureyrar munu því sýna í Hofi um helgina og er sérstaklega gaman að sjá gróskuna í listalífi unga fólksins á Akureyri.

Að lokum má svo geta þess að um helgina sýnir Leikfélag Akureyrar Sjeikspír eins og hann leggur sig! en þessi fjöruga uppfærsla var frumsýnd síðustu helgi við mikil hlátrasköll.

Það verður því aldeilis nóg um að vera í húsakynnum Menningarfélags Akureyrar um helgina þar sem ungt og hæfileikaríkt fólk kemur við sögu bæði á sviði og í áhorfendasal ásamt hópi fullorðinna í nostalgíukasti.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó