NTC

Viðburðadagatal Barnamenningarhátíðar á Akureyri

Viðburðadagatal Barnamenningarhátíðar á Akureyri

Viðburðadagatalið sem margir bíða spenntir eftir er nú sýnilegt á barnamenning.is. Fjöldi spennandi viðburða og sýninga sem hvetja börn og ungmenni til virkrar þátttöku í menningarstarfi og veita þeim tækifæri til að njóta lista og menningar. 

Þetta er í sjöunda sinn sem Barnamenningarhátíð á Akureyri er haldin og hún stendur allan aprílmánuð. Eitt meginmarkmið hátíðarinnar er að öll þátttaka barna og ungmenna sé þeim að kostnaðarlausu. 

Fyrr á árinu úthlutaði bæjarráð 20 styrkjum til fjölbreyttra verkefna í tengslum við hátíðina en alls eru um 50 viðburðir á dagskrá að þessu sinni. Þar má nefna Skartgripasmiðju, kviss kvöld með FÉLAK, Hulduverur – myndlistarsýningu í Hofi, Legodag á Amtsbókasafninu, derhúfuhönnunarkeppni í Braggaparkinu og margt fleira. Einnig eru á viðburðadagatalinu árlegir viðburðir á borð við Myndlistarverkstæði Gilfélagsins og Hæfileikakeppni Akureyrar. Einn af hápunktum hátíðarinnar er tónleikarnir Sumartónar í Hofi en þar mun Emmsjé Gauti trylla gesti með sínum vinsælustu lögum. Kynning verður í höndum Ungmennaráðs og stelpuhljómsveitin Skandall hitar upp.

Hólmfríður Kristín Karlsdóttir, verkefnastjóri hátíðarinnar, segir að það verði virkilega spennandi að sjá alla þessa fallegu og skapandi viðburði í apríl og án efa gott fyrir fjölskyldur að byrja vorið á góðri samveru. 

Hægt verður að fylgjast með uppákomum á Barnamenningarhátíð á samfélagsmiðlum Akureyrarbæjar á Facebook og Instagram. Einnig er mælt með að gestir hátíðarinnar noti myllumerkið #barnamenningak.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó