NTC

Við þurfum sérfræðilækna út á land!

Við þurfum sérfræðilækna út á land!

Ingibjörg Ólöf Isaksen skrifar

Heilbrigðismálin eru forgangsmál næsta kjörtímabils. Það þarf að ráðast í stórtækar kerfisbreytingar á heilbrigðiskerfinu okkar og þar skiptir miklu máli að aðgengi fólks að þessari þjónustu sé tryggt óháð efnahag, en ekki síður – óháð búsetu. Allir landsmenn eiga að búa við sömu heilbrigðisþjónustu.

Landið okkar er ekki bara fallegt á að líta og ríkt af náttúrauðlindum heldur er það einnig víðfeðmt og strjálbýlt. Landsmenn greiða sömu skatta hvar sem þeir búa en því miður fá sumir meira fyrir peninginn en aðrir og aðgengi að þjónustu á vegum ríkisins er misskipt eftir því hvar fólk er búsett á landinu. Það er staðreynd að heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni hefur átt undir högg að sækja á síðustu árum og heilbrigðisstarfsfólki á landsbyggðinni hefur fækkað jafnt og þétt. Á sumum stöðum er jafnvel erfitt halda uppi grunnþjónustu. Þetta er ekki boðleg staða.

Tryggjum jafnt aðgengi að sérfræðiþjónustu

Það virðist því miður stundum gleymast í umræðunni að íbúar landsbyggðarinnar þurfa einnig á sérfræðiþjónustu að halda. Samkvæmt lögum er einungis skylda að veita almenna heilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Þjónusta sérgreinalækna fellur ekki þar undir. Eins og staðan er í dag er það oft tilviljunarkennt ef sérgreinalæknar koma til starfa á landsbyggðinni og oftast er það vegna einhverskonar tengsla við staðinn. Staðreyndin er sú að mörg þeirra starfa í heilbrigðiskerfinu sem þarfnast sérkunnáttu er auðveldlega hægt að sinna úti á landi. Hluti þeirra kerfisbreytinga sem ráðast verður í er einmitt að tryggja jafnara aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að slíkri þjónustu.

Þjóðhagslega hagkvæmt

Til þess að átta sig á umfangi vandans er gríðarlega mikilvægt að lagst verði í greiningu á þeirri þjónustu sem boði er á landsbyggðinni. Sjá hvar þörfin liggur og þá verður hægt að áætla hver þörfin er og hvar brýnast er að bæta úr. Það er nauðsynlegt að vinda ofan af því ástandi sem skapast hefur á síðustu árum.

Það er ekki eðlilegt að margir íbúar landsbyggðarinnar séu farnir að taka því sem sjálfsögðum hlut að leggja land undir fót, með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn, til þess að sækja sér sérfræðiþjónustu til Reykjavíkur. Það heldur engan veginn þjóðhagslega hagkvæmt að sinna sérfræðiþjónustu með þessum hætti. Miklu nær væri t.d. að senda sérfræðing út á land til að sinna þessari þjónustu. Það er bæði ódýrara fyrir ríki og landsmenn ásamt því að vera mun umhverfisvænna.

Allir landsmenn eiga rétt á sömu heilbrigðisþjónustu

Landsbyggðarfólk á rétt á sömu þjónustu og íbúar höfuðborgarsvæðisins. Gríðarleg verðmætasköpun á sér stað á landsbyggðinni og þeir skattgreiðendur sem þar búa greiða sömu skattprósentu og íbúar höfuðborgarsvæðisins. Hvers vegna ættu þeir þá að sætta sig við lakari heilbrigðisþjónustu.

Það er stefnumál mitt, og í forgangi hjá Framsókn, að endurskoða núverandi fyrirkomulag. Við þurfum að tryggja bæði grunn heilbrigðisþjónustu, og þjónustu sem krefst sérfræðiþekkingar, á landsbyggðinni. Framsóknarflokkurinn hefur haft það á stefnuskrá sinni að allir íbúar landsins eigi að hafa jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag. Við erum með gott heilbrigðisstarfsfólk, það á skilið gott starfsumhverfi og íbúar landsins eiga að fá bestu þjónustu sem hægt er að veita.

Höfundur er í oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við næstu Alþingiskosningar


Kaffið.is fylgist með Alþingiskosningunum í haust með áherslu á Norðausturkjördæmi. Finna má fleiri greinar og annað gagnlegt efni tengt kosningunum með því að smella hér.

Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI