NTC

,,Við þurfum að fá að reka okkur á, leyfið okkur að þroskast“

Edda Sól Jakobsdóttir, 19 ára nemandi við Menntaskólann á Akureyri, skrifaði á Facebook síðu sína svar við grein sem birtist nýlega á vefnum Austurfrétt.  Við fengum góðfúslegt leyfi til þess að birta pistil Eddu hér á Kaffinu.

Edda Sól Jakobsdóttir skrifar

Það er óhætt að segja að foreldravaktin hér á Akureyri hefur verið mjög umdeild.

Eldra fólk hefur oft meiri völd en það unga, það þýðir þó ekki að eldra fólk hafi oftar rétt fyrir sér en unga kynslóðin. Reynsla þeirra eldri gerir þau vitrari, hinsvegar er unga kynslóðin oftar í samræmi við nútímann og raunsæi þeirra gerir þau vitrari. Við höfum mismunandi sjónarhorn á hlutina og hér í greininni að neðan segir Ingunn frá sinni hlið. Ég ætla því að segja frá minni hlið:

Síðastliðið ár og þar til nú hef ég ásamt fleirum tekið þátt í því að skipuleggja tónlistarhátíðir ætlaðar fólki á lögaldri og þetta aldurstakmark kemur skýrt fram á miðunum. Hátíðirnar eru skipulagðar með góðum vilja og finnst tónlistarmönnum frábært að fá boð hingað norður, enda ekki mikið um þess háttar.

Foreldravaktin (eða ákveðnir einstaklingar innan hennar) eins og ég hef fengið að kynnast henni reynir hinsvegar að beita öllum sýnum kröftum í það að eyðileggja fyrir skipuleggjendum og unglingum sem vilja fara út á lífið. Ingunn kemur inn á það að „Ólögráða nemendur við MA eru rúmlega 400“. EN ekki má gleymast að það eru rúmlega 300 nemendur við skólann sem eru 18 ára og eldri. Vegna áhyggja af þeim sem eru undir lögaldri eigum við þá að eyðileggja fyrir þeim sem hafa náð lögaldri?

Foreldravaktin skiptir sér af skemmtanalífi hér á Akureyri á röngum forsendum. Með því meina ég að í stað þess að reyna koma í veg fyrir að tónlistarhátíðir séu haldnar, væru réttari vinnubrögð að mínu mati að sækjast eftir samstarfi í þeim tilgangi að tónlistarhátíðir hér fari fram á öruggari hátt.

Verum raunsæ. Líkjum því að ætla að reyna að stöðva ,,djammið“ við að reyna að stöðva barn frá því að fara í skóla. Barnið fer með samþykki foreldra sinna í skólann en þá reynir félag að stöðva skólagöngu barnsins því félaginu finnst þetta heimskuleg ákvörðun.

Eins klisjukennt og það hljómar þá erum við unga kynslóðin í „skóla lífsins“ á þessum þroskandi árum. Ég talaði áðan um það að reynsla þeirra eldri gerir þá vitrari. Við unga fólkið erum að byggja upp reynslu okkar í lífinu. Ef okkur finnst spennandi að fara út á lífið og fáum samþykki frá okkar eigin foreldrum afhverju ætti foreldravaktin þá að koma í veg fyrir það? Því jú, okkur gæti mistekist og ekki allt farið á þann veg sem það átti að fara, en þannig lærir maður best. Við þurfum að fá að reka okkur á, leyfið okkur að þroskast.

Við unga fólkið erum framtíðin. Ef við megum ekki skipuleggja tónlistarhátíðir hver á þá að gera það? Eigum við að þurfa fara suður til að heyra uppáhalds tónlistarmann okkar spila þegar við höfum tækifæri til að fá hann norður? Ég hef lent í því að svona tækifæri hefur verið eyðilagt fyrir mér og öðrum. Á einni klukkstund gat foreldravaktin eyðilagt margra tíma vinnu okkar og spenning hundruða nemenda. Það er mjög augljóst að foreldravaktin stuðlar því ekki að jákvæðu viðhorfi nemenda gagnvart þeim né samstöðu.

Þetta verður til þess skipuleggjendur kjósa að hylja nafn sitt þegar þeir skipuleggja viðburði. Það er nú þegar komið dæmi um félag sem gerir það hér á Akureyri. Foreldravaktin veit þannig ekki hver er að halda viðburðinn og getur því ekki níðst á skipuleggjendunum. Þetta hefur í för með sér útilokun á samstarf, er það betra? Ef foreldravaktin neitar að hittast á miðri leið finnum við alltaf lausn til að taka U-beygju framhjá félaginu og þannig batnar ástandið ekki.

Ingunn talar um að ætlun foreldravaktarinnar sé að „ljá börnum okkar og unglingum lið, veita þeim aðhald og vera til aðstoðar ef skemmtunin fer úr böndunum“. Foreldravaktin er því hugsuð í fallegum tilgangi en hún fer því miður ekki svoleiðis fram. Talað er um að „hirða upp börn“! Einnig má benda á það að engin bein samskipti eru á milli foreldrafélagsins og skipuleggjenda heldur er skólameistari notaður sem milliliður. Þessi vinnubrögð virka þannig að verið sé að vinna gegn nemendum en ekki með þeim. Eyðilegging og bönn hafa aldrei farsælan endi heldur byggja þau upp ágreining.

Foreldravaktin þarf því virkilega að skoða sín vinnubrögð því þetta er komið út í öfgar. Verum með opinn hug gagnvart báðum hliðum málsins og höfum trú á yngri kynslóðinni.

Greinin er aðsend – skoðanir þurfa ekki að endurspegla skoðanir ritstjórnar Kaffisins.

 

Sambíó

UMMÆLI