NTC

Við þurfum á Reykja­víkur­flug­velli að halda

Við þurfum á Reykja­víkur­flug­velli að halda

Ingibjörg Isaksen skrifar

Hvort sem okkur líkar betur eða verr er staðreyndin sú að eldgosatímabil er hafið á Reykjanesskaga, tímabil sem talið er að geti staðið í upp undir 400 ár. Þessi breytta sviðsmynd neyðir okkur til þess að breyta fyrri plönum og taka nýjar ákvarðanir. Síðustu ár hefur mikið verið rætt um uppbyggingu á nýjum flugvelli og ber þar einna hæst hugmyndir um uppbyggingu á flugvelli í Hvassahrauni. Undirrituð telur að flestir séu nú sammála um það að sú staðsetning sé líklega ekki vænlegur kostur en rétt er þó að bíða með allar yfirlýsingar. Skýrslan um Hvassahraun er væntanleg í mars og þá fáum við endanlega niðurstöðu. Til þess að sú mikla vinna sem lögð var í skýrsluna komi að fullum notum og að hún er á lokametrunum er auðvitað skynsamlegast að sjá hvað hún hefur að segja.

Við getum ekki beðið í 20 ár

Það er þó ljóst er að það tekur um 15 til 20 ár að hanna og byggja flugvöll sem rúmað getur innanlandsflug, sjúkraflug og þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar. Á sama tíma ekki hægt að una við núverandi aðstæður til flugsamgangna, brýn þörf er á úrbótum. Sú sem hér skrifar telur að við höfum góðan flugvöll sem getur þjónustað okkur áfram um ókomin ár, Reykjavíkurflugvöll, en hann þarf að efla og bæta. Sigurður Ingi Jóhannsson tilkynnti á síðasta ári um uppbyggingu á nýrri flugstöð, hér er um að ræða uppbyggingu sem lengi hefur verið beðið eftir enda þjónar núverandi flugstöð illa nútíma þörfum. Þá ber að halda því til haga að það er Reykjavíkurborg sem fer með skipulagsvaldið í Vatnsmýrinni og mikilvægt er að það skipulag komi ekki til með að draga úr flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.

Hlutverk höfuðborgar

Það gleymist oft í umræðunni hversu Reykjavíkurflugvöllur er samfélagslega mikilvægur, nálægð við miðborg, stjórnsýslu, háskóla og Landspítala spilar þar lykilhlutverk. Eins gleymist í umræðunni um uppbyggingu íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni mikilvægi nálægðar Reykjavíkurflugvallar við Landspítalann. Samkvæmt lögum eiga allir landsmenn rétt á sömu heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi er mikilvægt að einfalt sé að nálgast þá þjónustu, flugvöllur í Reykjavík tryggir það. Það má ekki gleyma að Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna og tryggja verður að allir landsmenn geti sótt þangað þá þjónustu sem þar er veitt.

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar.

Sambíó

UMMÆLI