Framsókn

„Við konur eigum að geta treyst því að geta gengið um borgina okkar og komist heilar heim“

Elín Inga Bragadóttir skrifar

Elín Inga Bragadóttir, Akureyringur, skrifaði ansi áhugaverða færslu á Facebook síðu sína í morgun um þann ótta sem konur þurfa að búa við. Við fengum góðfúslegt leyfi Elínar til að birta pistilinn hjá okkur hér á Kaffinu.

Síðustu daga hef ég haft króníska gæsahúð af óhug yfir örlögum Birnu Brjánsdóttur, líkt og þjóðin öll. Hef haft stóran stein í hjartanu af sorg og verið vansvefta af vangaveltum um óréttlæti tilverunnar. Stöðugar hugsanir um fjölskyldu Birnu og vini hafa herjað á mig og það að senda hlýjar samúðarhugsanir og styrk til þeirra virðist eitthvað svo aumt. Samtímis það eina sem er á mínu valdi sem hjálparvana áhorfandi þessa harmleiks. Ég vil votta öllum ástvinum hennar mína dýpstu samúð og mun halda áfram að senda ykkur styrk og hlýju. Birna, þú munt aldrei hverfa úr huga mér og ég vildi óska að ég hefði getað hjálpað þér.

Birna upplifði martröð hverrar konu, leyfi ég mér að fullyrða. Foreldrar hennar martröð hvers foreldris, get ég ímyndað mér. Á milli þess sem ég græt af sorg yfir örlögum Birnu, þá græt ég af reiðiblandinni sorg yfir því að einhverjir hafi vogað sér að stíga fram og spyrja hvað Birna hafi verið að þvælast ein um nótt. Ekki aðeins vegna algjörs skorts á samkennd heldur einnig vegna þess að það varpar hluta ábyrgðarinnar yfir á brotaþola ódæðisverknaðarins. Við sjáum sem betur fer flest að það er fullkomlega út í hött. Við konur eigum að geta treyst því að geta gengið um borgina okkar þvera og endilanga, drukknar eða ódrukknar, og komist heilar heim.

Í kjölfar atburða síðustu daga hefur skapast umræða um að konur verði að fara varlega og passa hver uppá aðra.

Fullkomlega skiljanlegar áhyggjur samlanda í sorg. Ég finn mig hins vegar knúna til að velta upp annarri hlið á þessari umræðu, þrátt fyrir að tímasetningin sé slæm og umræðan viðkvæm.

Ég hef margoft orðið fyrir áreitni um ævina. Sakleysislegri, kynnu margir að segja, en þessi atvik hafa hvert og eitt ýtt undir ótta sem ég ber í brjósti. Ótta við að verða fyrir því sem Birna varð fyrir. Það er absúrd, en stundum hef ég hugsað með mér hvað ég sé heppin að hafa þó „aðeins“ orðið fyrir þessu áreiti.

Ég hef gert ótal ráðstafanir til að fyrirbyggja að verða fyrir ofbeldi og eytt í það mikilli orku, allt síðan ég var unglingur. Ég hef passað drykkinn minn á skemmtistöðum, passað mig að ganga ekki ein yfir stór mannlaus svæði á nóttunni og þegar ég var yngri var ég vanalega búin að stimpla inn símanúmer foreldra minna í símann minn áður en ég labbaði heim á kvöldin með hjartað á milljón. Og ég er ekki ein. Nánast allar konur sem ég þekki hafa gert einhverjar slíkar ráðstafanir. Haft lykla á milli fingra, hnefann krepptan, verið búnar að stimpla inn símann hjá neyðarlínunni o.s.frv. Í íslenskri rannsókn sem nýlega var gerð kom í ljós að allir kvenkyns þátttakendur gerðu einhverjar slíkar ráðstafanir þegar þeir voru einir á ferð á nóttunni og eins sá karlkyns þátttakandi sem orðið hafði fyrir ofbeldi. Aðrir ekki.

Fyrir ekki svo löngu síðan sagði ég vanalega „Farðu varlega!“ við yngri systur mína þegar hún fór út að skemmta sér. Mér fannst það heilbrigð skynsemi. Ég hef núna vanið mig á að segja „Skemmtu þér vel!“ við hana og láta þar við sitja, þó að ég hafi enn áhyggjur. Ástæðan er sú að mér virðist sem það að segja konum í sífellu að fara varlega viðhaldi sama gamla, gallaða kerfinu þar sem ábyrgð á mögulegu ofbeldi er velt yfir á þann sem enga ábyrgð ber. Þá finnst mér ljóst að slíkt ýti einnig undir sjálfsásökun þolenda, sem næg er fyrir. Loks finnst mér óeðlilegt og ósanngjarnt að helmingur þjóðarinnar sé alinn upp í ótta.

Ég man alltaf eftir því þegar ég heyrði fyrst af “Take Back the Night”, samtökum sem stofnuð voru á áttunda áratugnum í Bandaríkjunum með það að markmiði að binda enda á kynbundið ofbeldi. Ég man að ég upplifði af ógnarkrafti hvað mig langaði að eiga nóttina líka, til jafns við karla. Ég áttaði mig í fyrsta sinn raunverulega á hve mikil ósanngirni er fólgin í því að ég eigi að beygja mig og bugta af ótta við að verða fyrir ofbeldi. Ég er þess vegna að æfa mig í að láta hjartað hamast aðeins minna þegar ég labba heim á nóttunni. Ég segi ennþá við sjálfa mig þegar ég geng ein heim að næturlagi að ef eitthvað muni henda mig, þá sé ekkert í mínu valdi sem hefði getað komið í veg fyrir það og svo held ég mínu striki. Þetta óttaleysi er smám saman að lærast og fyrst ég get lært það, þá hljóta fleiri konur að geta það líka. Við eigum ekki að þurfa að lifa í ótta við ofbeldi.

Konur hafa ferðafrelsi, eins og karlar, á öllum tíma sólarhrings, drukknar og ódrukknar. Ef við ætlum hins vegar að skerða það með því að fylla þær skömm yfir að vera einar á ferð um nætur og fara þess á leit að þær taki ætíð taxa heim eftir að hafa verið að skemmta sér, þá þarf einfaldlega að setja taxastyrk til kvenna á fjárlög.

Mætum öll á laugardaginn #fyrirBirnu, vottum samúð, sýnum samhug og hvert öðru kærleika <3

https://www.facebook.com/events/107233646456812/

Sambíó

UMMÆLI