„Við getum ekki setið hjá og látið börnin okkar ein um að mæta þeim heimi sem mun blasa við þeim ef ekkert verður að gert“

„Við getum ekki setið hjá og látið börnin okkar ein um að mæta þeim heimi sem mun blasa við þeim ef ekkert verður að gert“

Dagfríður Ósk og Óli Steinar eiga tvö börn og eru búsett á Akureyri. Þau hafa nú breytt til í venjum sínum í þeim tilgangi að leggja sitt að mörkum til umhverfisverndar. Fyrir stuttu fóru þau að deila sögu sinni á Instagram undir notendanafninu Hvað getur ein fjölskylda

Dagfríður Ósk Skrifar:

,,Þegar hjón hafa setið sunnudagskvöld eftir sunnudagskvöld yfir heimildaþáttunum “Hvað höfum við gert?” sem sýndir voru á RÚV í vetur, situr eftir lamandi tilfinning sem fylgir þeirri vissu að framtíð jarðarinnar eins og við þekkjum hana og þar með framtíð barna okkar sé í mikilli hættu. Eftir smá vangaveltur og dass af loftlagskvíða tókum við þá ákvörðun að við þyrftum að grípa til aðgerða, við gætum ekki setið hjá og látið börnin okkar ein um að mæta þeim heimi sem mun blasa við þeim ef ekkert verður að gert. 

En þá kom spurningin, hvað getum við gert? Og hvað er það sem skiptir mestu máli að við gerum? Í okkar huga var áherslan á fjöldann, ef að allir breyta sínum venjum, þó ekki sé nema að hluta, erum við komin vel af stað með að hafa áhrif á framtíðina. Þess vegna ákváðum við að leggja áherslu á að skoða, hvað getur ein fjölskylda gert? Úr þessum pælingum varð til instagrammið okkar, “Hvað getur ein fjölskylda” þar sem við deilum þeim breytingum sem við erum að gera á okkar líferni í þágu umhverfisins. 

Að gera stórtækar breytingar á líferni sínu getur virst ógnvekjandi og hálf ógerlegt og þess vegna finnst okkur skipta máli að leggja áherslu á allar litlu breytingarnar. Litlar breytingar sem við gerum án þess að fá þá tilfinningu að við séum að umturna öllu, þessar litlu breytingar hafa nefnilega áhrif í krafti fjöldans.

Þeir sem tileinka sér umhverfisvænan lífstíl notast gjarnan við þrjá megin punkta, á ensku heita þeir, “Reduce, reuse and recycle” sem útleggst á íslensku sem “kaupa minna, endurnýta og endurvinna” og þetta þarf að vera í þessari röð. Mikilvægast er nefnilega að kaupa minna af öllu, svo skiptir máli að endurnýta það sem kemur inná heimilið og loks endurvinna það þegar það hefur lokið líftíma sínum.

Það er ýmislegt sem við höfum lært eftir að við fórum að skoða lífstíl okkar og hverju við gætum breytt, við eigum einnig margt eftir ólært og sumar breytingar taka lengri tíma en aðrar. En mikilvægast er að byrja og vera óhræddur við að prufa sig áfram, við erum ekki að sækjast eftir fullkomnun, enda er hún ekki til, en við leggjum okkur fram um að gera það sem við getum og því langar okkur að deila með ykkur.

Versla notað

Að búa til nýja hluti, hvort sem það er fatnaður, leikföng, húsgögn eða hvað annað  krefst mikils af náttúrunni og því fylgir stórt kolefnisspor. Þess vegna er mjög mikilvægt að reyna eftir fremsta megni að versla það sem okkur vantar notað. Það er hægt í langflestum tilfellum auk þess sem aðgengið að notuðum vörum er alltaf að aukast. Til dæmis er fjöldinn allur af sölusíðum á Facebook, bland.is, svo eru nytjamarkaðir Hertex, Rauða krossins, Fjölsmiðjan og Góði hirðirinn. Verslunum þar sem fólk leigir bás og selur sínar eigin vörur fer einnig fjölgandi og má þar nefna Aftur Nýtt á Akureyri, Barnaloppuna, Trendport og Extraloppuna á Höfuðborgarsvæðinu.

Nota fjölnota í stað einnota

Orðið einnota er notað yfir hluti sem við notum einu sinni og hendum svo í ruslið. Það þýðir að það þurfti orku og efni til að búa til þennan hlut sem við notum svo í örfáar mínútur áður en við losum okkur við hann aftur. Það er átakanlega sorglegt og við leiðum of sjaldan hugann að því. Hvað getum við gert í því? Við getum fækkað einnota hlutunum með því að skipta þeim út fyrir fjölnota.

Að fara með fjölnota poka í búðina er oft fyrsta skrefið í þessum efnum, þá er gott að hafa í huga að taka líka með sér fjölnota pokann þegar farið í aðrar verslanir en matvörubúðina. Nota fjölnota poka fyrir ávexti og grænmeti, eða einfaldlega hafa það laust. Fjölnota kaffimál er einnig mjög góð lausn, að skipta eldhúsrúllunni út fyrir þvottapoka/klúta sem eru svo settir í þvottavél með handklæðunum, að afþakka plaströr á veitingastöðum og kaupa fjölnota stálrör til að nota heima við. Svona mætti lengi telja, en mikilvægt er líka að muna að þó að ákveðinn hlutur sé hugsaður sem einnota þýðir það ekki að það þurfi að nota hann aðeins einu sinni. Til dæmis er hægt að skola plastpoka utan af brauði og morgunkorni og nota aftur og aftur. 

Plastlausar lausnir

Plastið er orðið að miklu vandamáli enda eyðist það ekki heldur brotnar á mjög löngum tíma niður í örsmáar einingar sem kallast plastagnir, þessar plastagnir eru farnar að finnast allstaðar í lífríkinu, allt frá innyflum fiska og fugla yfir í salt og kranavatn. 

Þess vegna er mikilvægt að minnka það plast sem kemur inná heimilið eins mikið og mögulegt er. Plastlausum lausnum fer hratt fjölgandi, og eru þeir hlutir sem við horfum helst eftir að velja í staðinn fyrir plastið búnir til úr bambus, tré eða gleri. Til dæmis má nefna, bambustannbursta, uppþvottabursta úr tré og vatnsbrúsa úr gleri. 

Þá er mikilvægt að skoða umbúðir af þeim hlutum sem við kaupum, forðast plastið eins og við getum og velja frekar t.d. glerílát í stað plastíláta, glerílátin er svo hægt að nota aftur og aftur, þau gefa ekki frá sér nein óæskileg efni og eru frábær, m.a. undir matarafganga. 

Náttúrulegar lausnir fyrir heimilið

Að velta fyrir okkur þeim efnum sem eru í kringum okkur varð óhjákvæmilega fylgifiskur þess að verða umhverfisvænni. Við fórum að hugsa um við hvaða aðstæður efni eins og hreinsiefni, sem eru svo sterk að þau eru með varúðarmerki á, eru búnar til og hvaða áhrif þessi efni hafa á okkur sjálf og lífríki okkar. Þurfum við á þessum efnum að halda í umhverfi okkar og hvað getur komið í staðinn. Við sáum fljótt að það er hægt að þrífa allt á heimilinu mjög vel án þess að nota til þess sterk efni, það eru til margir umhverfisvænni kostir og svo standa matarsódi, edik, uppþvottalögur og salt alltaf fyrir sínu í þrifunum. 

Náttúrulegar lausnir fyrir okkur

Við höfum smátt og smátt skipt öllum húð og hárvörum út fyrir vörur sem innihalda einungis náttúruleg efni, úrvalið af slíkum vörum eru alltaf að aukast. Sumt er hægt að búa til sjálfur, t.d. er mjög einfalt að búa til sinn eigin svitalyktaeyði úr matarsóda, kókosolíu og ilmkjarnaolíu. Þá er orðið töluvert úrval af náttúrulegum kremum sem eru auk þess búin til hér á landi. 

Mikilvægt er að hafa í huga að nýta það sem til er á heimilinu fyrst áður en skipt er yfir í umhverfisvænan varning. Þó getur verið gott að kaupa það sem við viljum að taki við áður en líftími hins gamla klárast því að þá er auðveldara að gera breytinguna þegar að því kemur. 

Þessi upptalning hér að ofan er langt frá því að vera tæmandi en gefur hugmynd um hvaða breytingar hver og einn getur gert inni á sínu heimili jörðinni til góðs.”

– Dagfríður Ósk Gunnarsdóttir

Tékkið á þessari mögnuðu fjölskyldu, þið getið eflaust lært eitt og annað gagnlegt.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó