NTC

„Við erum með heimsklassauppsetningu á frægu leikriti og það er bara ekki sjálfsagt“

„Við erum með heimsklassauppsetningu á frægu leikriti og það er bara ekki sjálfsagt“

Jæja krakkar.

Þá er komið að enn einni leiklistargagnrýni minni algerlega umfram eftirspurn. Ég verð að segja eins og er að ég hugsaði með mér að það gæti ekki verið að nokkur manneskja taki orðið mark á mér sem einhverskonar rýnanda þar sem ég hef þann leiða tama að þykja alltaf allt alveg ofboðslega frábært og lofa allt í hástert sama hvað. Ég áttaði mig á að ég væri sennilega enginn Jón Viðar og nú væri kominn tími til að ég tæki hlutverki mínu alvarlega, skildi setja upp gagnrýnigleraugun og gera þessu nýja verki fáránlega fagmannleg skil. Dreif fram gömlu námsbækurnar, skerpti á leiklistarþekkingunni, lagði merkileg hugtök á minnið og gerði mig svolítið breiða (ekki að ég sé ekki nógu breið fyrir en þið vitið hvað ég á við).

Ég mætti því í Samkomuhúsið föstudaginn síðasta á frumsýningu Leikfélags Akureyrar á ekki minna verki en Chicago. Ég hef aldrei verið fyrir það að þykjast vera eitthvað annað en ég er og skammast mín því ekkert að segja að verkið hafði ég aldrei séð áður þrátt fyrir að vera leiklistarmenntuð og mikil leikhúskona. Ég hafði ekki einu sinni séð myndina. Ég hlammaði mér í sætið, algerlega tilbúin að rífa þetta í mig. Varla væri leikhús á norðurhjara Íslands að fara að gera þessu heimsfræga verki nein sérstök skil. Á pínulitlu sviði í þokkabót. Já og svo var ein aðalleikonan bara söngkona. Ég ætlaði nú aldeilis að gagnrýna það.

En þið þekkið kellu. Varla voru nema tíu mínútur liðnar þegar ég var sest fram á stólbríkina, með geiflurnar nánast á stólbakinu framan við mig, gleiðbrosandi og hrifin af stað. Fljótlega áttaði ég mig á að ég þyrfti sennilega bara að gangast við því að vera ekki þurrprumpandi af fagmennsku í mínum leiklistarskrifum. Ég þyrfti einfaldlega að vera bara ég. Ef mig skyldi kalla. Og hver er ég? Jú ég er manneskjan sem ætla að segja ykkur að nú er ekki rétti tíminn til að draga orð mín í efa. Hrifnæm er ég jú og það er auðvelt að ná mér í hvers kyns listsköpun. En að láta þessa sýningu framhjá sér fara vegna þess að ég er ótraust og ótrúverðug Gróa á Leiti væri banalt.

Það er nefnilega svo að hér í þessum litla bæ okkar er búið að færa okkur West end sjálft. Ég hef sagt það áður og segi enn að hún Marta okkar Nordal hefur fært leiklistarmenningu okkar upp á hærra plan síðan hún mætti hingað. Fyrir þá sem ekki þekkja til get ég sagt ykkur að það er nefnilega meira en að segja það að taka ákvörðun um að setja upp slíkt verk í þessu umhverfi, á þessu sviði, með þetta fjárframlag (ég er að horfa á þig ríkisstjórn).

Að þessu sinni langar mig að leggja meiri áherslu á framleiðsluna. Þ.e. dans, búninga og sviðsmynd. Sýningin öll er mikið sjónarspil og stórkostleg fyrir augað. Það er krefjandi fyrir sviðmyndarhönnuð að vinna með svo stóra sýningu á svo litlu sviði. En það er gert svo átaklaust að aldrei finnur maður fyrir því að svo sé. Það er heldur ekki nein stærilæti í sviðsmyndinni. Engin sýndarmennska. Bara fumlausar lausnir sem leyfa verkinu að flæða.

Chicago er períóðuverk og auðvitað þarf að skila því í búningunum. Ó hvað það er fallegt! Ó hvað það er bara svo fallegt. Ég veit eiginlega ekkert hvernig ég á að gera því skil. Aftur, ég er bara ég, enginn Jón Viðar sem gæti kannski sagt þetta vera látlaust, einfalt og klént. En það er nefnilega málið. Búningar eiga ekki að svindla sér yfir. Þeir eiga að vera eitt lag í persónugerð hvers karakters og góður búningur fyllir upp í holurnar og leyfir leikaranum að finna sig, hvíla í og flæða. Þetta gerir hún Björg Marta okkar einu sinni enn svo ævintýralega vel. Það sem við erum rík að hafa hana hér hjá okkur. Hún gerir períóðunni bara hrein og klár skil og er ekki að sýnast neitt. Mig langar þó að nefna sérstaklega búninga Margrétar Eirar í hlutverki Mama Morton og Arnþórs Þórsteinssonar í hlutverki Adams. Björg Marta kann að kalla fram það besta í fólki með úthugsuðum búningum og Margrét Eir nýtur sín sannarlega. Bara að hún hafi vasa til að lauma höndunum ofan í þegar hún þarf að leggja áherslu á yfirburði sína er svo æðislegt smáatriði sem skiptir samt svo miklu máli. Og auminginn hann Adam. Vesalings trúðurinn sem allir spila með. Hollning hans er fullkomnuð með klæðaburðinum.

Lee Proud. Elsku hjartans Lee okkar. Ættleiðum hann. Plís. Nú hefur Lee algerlega toppað sig. Dans og söngur er að sjálfsögðu stór hluti af þessu verki og þau atriði gera það að verkum að þér leiðist aldrei. Aldrei! Ég fæ bara gæsahúð við tilhugsunina um að honum Lee okkar tókst að skapa hér stór dansverk á litlu sviði, sem hrífa þig með og það er hreinlega erfitt að sitja kjurr í sæti sínu. Þegar hraðinn er orðinn mikill, takturinn ör og allt er á iði skilur maður ekki hvernig fólk á sviðinu er ekki bara að keyra hvert annað niður.  Hann hefur líka fengið góðan leir að moða úr því dansarar sýningarinnar eru til fyrirmyndar. Ef ég væri ekki svona stirð í öðrum hælnum hefði ég boðist til að taka þetta að mér en það er eins og það er.

Ég þarf ekkert að ræða þessa leikara neitt held ég. Þórdísi höfum við fengið að sjá vaxa og dafna hér hjá Leikfélagi Akureyrar og nú get ég sagt ykkur að hún er orðin algerlega stórkostleg. Það er unun að sjá hana hafa vald á nánst hverri einustu frumu í líkamanum. Hún hefur augljóslega lagt í bankann og unnið vel síðustu ár því hér er held ég ein mest upprennandi leikkona landsins. Érrasegjykkurþa! Það er í LA sem fólk vex.

Björgvin Franz minn. Við þurfum að ræða saman. Þegar þú varst kominn upp í rjáfur í kaðli og sveiflaðist um og snerist get ég svo guðsvariðþað að ég missti legkökuna! Hún er sennilega einhversstaðar í óskilamununum. Björgvin hefur auðvitað alltaf verið Björgvin. Þið vitið krakkar, þekkið þið einhvern sem finnst hann glataður? En þetta hlutverk er einfaldlega eins og skrifað fyrir þennan silfurref með kolgeitbrosið. Lúmski löffinn með allt sitt á hreinu. Ég kem aftur þó ekki væri nema bara fyrir búktalaraatriði Björgvins og Þórdísar. Þar nánast leið yfir mig úr hlátri og aðdáun því bæði unnu svo fumlaust saman að unun var að. Eitt besta leikhúsatriði sem ég hef séð.

Ræðum svo aðeins Jóhönnu Guðrúnu. Ég auðvitað sló um mig og sagðist sko aldeilis gagnrýna það að verið sé að ráða söngkonu í leikkonuverk. Ég, eins og svo oft áður og sennilega ástæðan fyrir því að ég er í breiðari kantinum, þarf náttúrulega að éta það ofan í mig. Auðvitað sér maður og finnur að hún er ekki alltaf að hvíla jafnvel í sínu eins og leikkanónurnar í kringum hana en á minn sann elsku barn! Jóhanna er einfaldlega bara stórgóð í sínu. Auðvitað þarf ekkert að taka fram að hún syngur þetta eins og herforingi og þær tóna allar stórkostlega vel saman hún, Margrét og Þórdís. En lokalag hennar og Margrétar kallaði fram allar tilfinningarnar þar sem þær féllu svo dásamlega hver að annarri. Samt veit ég ekki neitt um söng. Ég er bara að skrifa það sem mér finnst.

Og talandi um Margréti. Ég er náttúrulega af þeirri kynslóð að Margrét Eir er einfaldlega átrúnaðargoð. Ég hafði aldrei séð hana leika á sviði áður svo ég var heldur betur spennt. Og hún bara færði mér nákvæmlega það sem ég átti von á henni. Mama Morton í höndum hennar er svo náttúrulegt eitthvað. Ég held ég geti bara ekkert séð aðra útgáfu af þessum karakter. Yfirvaldið, hrokinn, gerviumhyggjan… bara. Svo auðvelt eitthvað.

Arnþór Þórsteinsson á hér algerlega stórleik. Það var með hann eins og Vilhjálms Bragason sem Ketill Skrækur, að ég mátti varla sjá hann á sviði þá fór ég að hlæja. Hann er vesalingur og aumingi og vitleysingur í öllum líkamanum. Svo mikið grey að það mátti nánast finna lykt af því út í sal. Það er ekki öllum gefið að geta sett karakter sinn út í nánast hverja einustu frumu, en það gerir Arnþór svo sannarlega. Ég verð líka alltaf pínu stolt þegar einhver úr röðum leikara úr Kvikmyndaskóla Íslands fær verðskuldað tækifæri. Arnþór svo sannarlega heldur uppi heiðri okkar hér. Takk Arnþór. Þú ert æði!

Bjartmar. Hver er þessi Bjartmar? Hvar funduði hann? Ekki skila honum. Ég get geymt hann.

Elsku hjartans fólk. Ekki bara Norðlendingar. Bara, fólk. Allt fólk. Reynið nú að sjá þessa sýningu. Við erum með heimsklassauppsetningu á frægu leikriti og það er bara ekki sjálfsagt. Til að við getum fengið slíkt upp í hendurnar þarf harðduglegt hugsjóna- og fagfólk sem leggur á sig mikla vinnu. Það er reyndar, eðlilega, nánast uppselt frameftir öllu en mikið vona ég að það verði hægt að sýna lengur og meira því þetta þurfa flestir að sjá. Tilnefning til leiksýningar ársins ætla ég að spá, gefið að menn fari nú að hugsa út fyrir landráðaskagann í þeim efnum.

Hrafndís Bára, bara eins og hún er. Takk fyrir mig. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó