,,Við erum ekkert meira ómissandi en faðir barnanna okkar“

Þóranna Friðgeirsdóttir, brottfluttur Akureyringur, skrifaði virkilega kraftmikinn pistil á facebook síðu sína á dögunum. Kaffið fékk leyfi til að birta pistilinn hér að neðan.

Þóranna Friðgeirsdóttir skrifar:

Í sumar tók ég erfiðustu ákvörðun lífs míns. Ég ákvað að frumburðurinn minn fengi að flytja 388km í burtu frá mér í haust, til Akureyrar til föður síns.
Sumarið 2016 ákvað ég að láta langþráðan draum rætast og flytja í borgina frá höfuðborg Norðurlands og fékk þá að taka 10. ára dóttur mína með mér. Það gekk ofsalega vel, hún var enga stund að eignast góðar vinkonur og koma sér inn í frábæran fimleikahóp. Gekk hreinlega eins og í sögu. Ég var auðvitað í skýjunum með það en það var ekki hægt að flýja það að við fluttum frá föðurfjölskyldu hennar, frá mjög góðum föður, yndislegri stjúpmóður og einni 3. ára systur, og sú litla saknaði stóru systur sinnar alveg hrikalega.

Faðir hennar átti það til að lauma því að mér við og við yfir síðasta vetur hvort ég væri til í að íhuga það að dóttir okkar fengi að flytja til þeirra haustið 2017, mér fannst tilhugsunin hrikaleg, enda litla stelpan mín. En ég gat ekki hrist það af mér að dóttir mín er líka það heppin að eiga virkan föður, föður sem þráði ekkert heitar en að dóttir hans byggi hjá honum og fjölskyldu sinni þeim megin. Auðvitað, hún er líka litla stelpan hans. Jafn mikið og mín.
Einsog mér þykir erfið tilhugsun að hafa hana ekki hjá mér alla daga, þá fann ég alveg hvað föður hennar þótti það líka erfitt. Þar að leiðandi þótti mér ekki sanngjarnt af mér að nýta það „vald“ sem ég hafði sem forráðamaður eitt að vera svo sjálfselsk á dóttur okkar.
Dóttir okkar er rosalega góð, ábyrgðafull og skynsamur krakki, einstaklega vel gefin.
Ég hef verið ein með hana og tvo litla bræður hennar i nokkurn tíma og var henni farið að finnast hún þurfa að bera einhverskonar ábyrgð á bræðrum sínum, farin að deila áhyggjum með mér sem hún á alls ekki að þurfa að hafa sem 11. ára barn. Þar að leiðandi fannst mér það í raun ekki spurning að fyrst ég er svo heppin sjálf að eiga barnsföður sem er svona virkur faðir að hún fengi að fara til hans og fjölskyldu sinnar fyrir norðan og fá því að vera bara það 11. ára barn sem hún á skilið, hún á ekki að þurfa að fullorðnast hraðar en aðrir vegna eigingirni í mér.

Þetta er ennþá mjög erfið tilhugsun og mun það þurfa að venjast all harkalega að vera ekki með nefið ofan í öllu sem barnið gerir, en með hjálp snjallsímans get ég fengið að sjá hana við flest tækifæri, ég mun gera mér ferðir norður fyrir alla helstu viðburði sem hún mun þurfa á mér að halda og svo kemur hún auðvitað til mín við hvert tækifæri.
Með þessum pósti vil ég hvetja allar mæður til þess að setja þarfir barnsins í fyrsta sæti, við erum ekkert meira ómissandi en faðir barnanna okkar. Með þeim orðum langar mig einnig að þakka hennar elskulegu stjúpmóður fyrir að taka dóttur minni opnum örmum og vera tilbúin í þetta verkefni. Ég er bara svo yfir mig þakklát.

Sambíó

UMMÆLI