Á morgun, föstudaginn 21. desember, standa Pieta samtökin fyrir Vetrarsólstöðugöngu en á morgun er stysti dagur ársins áður en daginn tekur að lengja aftur. Viðburðurinn er haldinn til minningar þeirra sem látist hafa af eigin hendi og hvatning til þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir að gefast ekki upp, þiggja hjálp og velja lífið.
Aðgangur er ókeypis og heitt súkkulaði og tónlistaratriði í boði. Henný Lind Halldórsdóttir bíður fólk velkomið á morgun og Hildur Eir Bolladóttir ávarpar samkomuna. Kór Laugalandsprestkalls flytur ljúfa tóna. Tónlistaratriði frá Ármanni Einarssyni, Garðari Bjarnarsyni, Ívani Guðmundssyni og Örnu Skaptadóttur. Að því loknu verður genginn stuttur spölur, kveikt á kertum og fólki gefst tækifæri til þess að skrifa miningarorð um ástvini í minningarbók.
Viðburðurinn hefst kl. 20.00 á morgun í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju. Pieta verð með kerti til sölu á 500 krónur sem rennur óskipt til styrktar Pieta.
PIETA Ísland eru samtök gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða en í fyrra var opnað Pieta hús í Reykjavík sem býður upp á ókeypis sálfræðiþjónustu og greiðan aðgang að þjónustu fyrir aðstandendur sem misst hafa ástvini í sjálfsvígi. Fyrirmyndin er sótt til PIETA House á Írlandi en þar hefur um áratuga skeið náðst einstakur árangur í sjálfsvígsforvörnum með þeim úrræðum sem PIETA House býður einstaklingum upp á. Markmið samtakanna er að koma einnig upp PIETA-húsi á Norðurlandi og annarsstaðar á Landsbyggðinni.
UMMÆLI