Ferðamannaverslanirnar The Viking hafa verið opnaðar á ný eftir að hafa verið lokaðar í tvær vikur vegna vangoldinna vörsluskatta. Eignir fyrirtækisins hafa verið færðar yfir á nýtt félag. Verslanirnar voru áður reknar undir kennitölu Hórasar ehf.
Mbl.is greinir frá því að þær hafi nú verið færðar yfir á nýtt félag. Samkvæmt Mbl sýnir kvittun úr verslun Viking við Hafnarstræti að þær séu nú reknar undir kennitölu félagins H-fasteignir, sem breytti virðisaukaskattsnúmeri úr leigu atvinnuhúsnæðis yfir í blandaða heildverslun um áramótin. Sigurður Guðmundsson, eigandi Viking, er stjórnarmaður í báðum félögum.
Í frétt Mbl segir að eftir að innheimtumenn ríkissjóðs hafi stöðvað starfsemi fyrirtækis vegna vanskila á gjöldum geti atvinnurekstur hafist að nýju með tvennum hætti: annars vegar með því að greiða meirihluta gjaldanna og hins vegar að flytja reksturinn yfir á nýja kennitölu.
Lögreglan á Akureyri og í Reykjavík lokaði öllum verslunum The Viking um miðjan janúar að beiðni tollstjóra, tveimur í Reykjavík og einni á Akureyri. Versluninni á Akureyri var lokað með lögregluinnsigli. Samkvæmt embætti tollstjóra er afar fátítt að gripið sé til slíkra aðgerða, en það er heimilt ef um er að ræða ógreidda vörsluskatta, sem eru virðisaukaskattur og staðgreiðsla.
UMMÆLI