NTC

Verslanir Samkaupa bjóða upp á póstþjónustu um land allt

Verslanir Samkaupa bjóða upp á póstþjónustu um land allt

Samkaup og Pósturinn hafa gert með sér samstarfssamning um póstþjónustu í 21 verslun Samkaupa um land allt. Samkomulagið felur í sér að sex verslanir Samkaupa bjóða upp á fulla póstþjónustu, í fimm verslunum verður hægt að nálgast pakkasendingar í Pakkaportum og í tíu verslunum verður komið upp sjálfsafgreiðslu Póstboxum þar sem hægt er að nálgast pakkasendingar allan sólarhringinn.  

„Við erum gríðarlega stolt af samstarfinu við Póstinn því nú getum við boðið viðskiptavinum okkar upp á enn betri nærþjónustu, sem er eitt af megin markmiðum Samkaupa. Nú er hægt að gera innkaupin og sækja póstsendingar á einum og sama staðnum,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa. „Samkaup er leiðandi matvöru-verslana á Íslandi í netverslun og tækni og þetta er enn ein nýjungin í þeim efnum. Samstarfið opnar einnig á ýmsa möguleika til framtíðar litið þar á meðal afheningu á lyfjum, áfengi og fleiru.“ 

Pósturinn hefur lagt höfuðáherslu á að endurskipuleggja þjónustu fyrirtækisins með aukna áherslu á viðskiptavini. Hluti af þeirri vegferð eru fleiri sjálfvirkar afhendingarleiðir í aukinni nálægð við viðskiptavini. Markmiðið er að tvöfalda afhendingarstaði Póstsins á næstu mánuðum.  

„Það eru gríðarlega spennandi tímar framundan hjá Póstinum og með samstarfinu við Samkaup erum við stíga stórt skref í átt að bættri þjónustu, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Við höfum undanfarið ár lagt mikla vinnu í að endurskipuleggja okkur með það markmið að auka aðgang viðskiptavina að þjónustunni okkar og má segja að það sé að raungerast núna. Við erum að bæta við fjöldanum öllum af Póstboxum og Pakkaportum en með þessum viðbótum er þjónustupunktum að fjölga um hátt í 40 á landsvísu. Samhliða þessu munum við kynna til leiks nýtt app á næstu vikum sem mun hafa mikil áhrif á samskipti viðskiptavina við okkur. Við erum hvergi nærri hætt og munum halda áfram að vinna að bættri þjónustu fyrir alla landsmenn á komandi mánuðum,“ segir Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs Póstsins. 

Mynd: Birgir Jónsson og Sesselía Birgisdóttir, frá Póstinum, og Heiður Björk Friðbjörnsdóttir og Gunnar Egill Sigurðsson, frá Samkaupum, við undirritun samningsins.  

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó