Hátt í fjörutíu nemendur í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri hafa á undanförnum dögum heimsótt skip og landvinnslu Samherja. Nemendur auðlindadeildar skólans hafa um langt árabil átt þess kost að skoða og kynnast starfsemi félagsins, sem hluta námsins. Magnús Víðisson brautarstjóri segir afar mikilvægt að öflug sjávarútvegsfyrirtæki séu starfandi í námunda við skólann, sem geri nemendum kleift að kynnast betur sjávarútvegi og haftengdri starfsemi.
Heimasíðan fékk að fylgjast með er nokkrir nemendur heimsóttu uppsjávarskipið Vilhelm Þorsteinsson EA 11. Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri tók á móti hópnum og útskýrði tæknina um borð en Vilhelm Þorsteinsson er eitt tæknivæddasta veiðiskip íslenska flotans. Sömuleiðis kynntu nemendurnir sér starfsemina í fiskvinnsluhúsi Útgerðarfélags Akureyringa á Akureyri.
Nálægðin við sjávarútveginn mikilvæg
„Þessar heimsóknir tengjast námskeiðinu „Íslenskur sjávarútvegur,“ þar sem nemendurnir fá yfirsýn yfir íslenskan sjávarútveg, söguna og þróun
til dagsins í dag bæði til sjós og lands. Þetta er nokkuð yfirgripsmikið námskeið og víða komið við. Verklegur hluti námskeiðsins inniheldur heimsókn í fiskvinnslur og skip ásamt æfingu í flökun og framleiðslu helstu afurða. Við höfum verið í samstarfi við Samherja um langt árabil og nálægðin við sjávarútvegsfyrirtæki er okkur mjög mikilvæg. Við njótum góðs af því að hér á Eyjafjarðarsvæðinu eru starfandi mörg fyrirtæki sem eru í haftengdri starfsemi og teljast framarlega á heimsvísu. Sömuleiðis hagnast atvinnulífið á nálægðinni við skólann, sjávarútvegsfræðingar eru til dæmis nokkuð áberandi hjá Samherja svo ég nefni dæmi. Ég hef fylgt nemendunum í þessar heimsóknir, sem eru afskaplega lærdómsríkar,“ segir Magnús Víðisson.
Hvetur ungt fólk til að kynna sér íslenskan sjávarútveg
Hákon Þ. Guðmundsson útgerðarstjóri Samherja segir ótvírætt að námið í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri skili greininni ríkulegum ávinningi.
„Sjávarútvegur er háþróuð atvinnugrein sem keppir á alþjóðlegum mörkuðum, þess vegna þurfum við starfsfólk með fjölbreytta reynslu og menntun. Háskólinn á Akureyri gegnir mikilvægu hlutverki í þessum efnum ásamt framhaldsskólunum og við hjá Samherja höfum kappkostað að vera í góðu samstarfi við auðlindadeildina, sem meðal annars útskrifar sjávarútvegsfræðinga. Eins og Magnús nefndi, starfa hjá Samherja margir sjávarútvegsfræðingar og ég er nokkuð viss um að þeim mun fjölga enn frekar á næstu árum. Meðal annars vegna þess eru hinar skipulögðu heimsóknir kærkomnar. Það er alltaf gaman að sýna nemendunum skipin og vinnsluhúsin og spjalla við þá um þessa viðamiklu atvinnugrein. Ég hvet ungt fólk eindregið til að kynna sér alla þá möguleika sem eru til staðar í íslenskum sjávarútvegi,“ segir Hákon Þ. Guðmundsson.
UMMÆLI